Haldinn í fundarsal bæjarráðs á bæjarskrifstofunum við Austurströnd 2,
Fimmtudaginn 15. mars 2018, og hófst hann kl. 08:00
Fundinn sátu: Sigrún Edda Jónsdóttir, formaður, Bjarni Torfi Álfþórsson aðalmaður, Guðmundur Ari Sigurjónsson, aðalmaður og Árni Einarsson áheyrnarfulltrúi.
Enn fremur sat fundinn Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri og Gunnar Lúðvíksson fjármálastjóri, sem ritaði fundargerð í tölvu.
Á fundinn mætti einnig undir lið 1. Gísli Hermannsson, sviðstjóri, undir lið nr. 2. Baldur Pálsson fræðslustjóri og Snorri Aðalsteinsson, félagsmálastjóri, undir lið 3. Árni Geirsson og Matthildur Kr. Elmarsdóttir frá Alta ráðgjafarfyrirtæki og María Björk Óskarsdóttir, sviðstjóri. Undir lið nr. 4. Baldur Pálsson fræðslustjóri.
Fyrir var tekið:
-
Málsnúmer 2018020011.
Stöðuleyfi/gámaleyfi á athafnasvæði Þjónustumiðstöðvar Seltjarnarnesbæjar.
GH mætti á fund ráðsins og gerði grein fyrir framkvæmdum á svæðinu.
Bæjarráð lítur mjög alvarlega á málið, farið var í óleyfisframkvæmd, sem sviðstjóri hefur beðist afsökunar á. Bæjarráð samþykkir stöðuleyfi til eins árs frá 15. mars 2018, ráðið áréttar að sótt sé um leyfi árlega.
Bókun Samfylkingar
Undirritaður saknar þess að vinna við framtíðarlausn á starfsemi áhaldahúss hafi ekki verið kláruð. Það er ekki boðlegt að stefnumótandi vinna sé lögð til hliðar og starfsfólk sveitarfélagsins upplifi að það þurfi að fara í kringum lög og reglur við að koma sér upp vinnuaðstöðu. Framkvæmdin á athafnasvæði áhaldahúss er óleyfisframkvæmd sem unnin var án vitneskju bæjaryfirvalda. Ég legg til að erindið verði sent aftur til bæjarstjórnar og leyfi til eins árs verði gefið út en að samhliða standi bæjarstjórn sína vakt og gangi frá framtíðarlausn og stefnu um þjónustumiðstöð bæjarins.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Bókun meirihluta.
Nýtt aðalskipulag og deiliskipulag á svæðinu gerir ekki ráð fyrir varanlegri byggingu á þessu svæði. Sú framkvæmd á gámasvæði þjónustumiðstöðvar í vetur var óleyfisframkvæmd sem starfsmaður hefur beðið afsökunar á. Bæjarráð samþykkir leyfi til eins árs á núverandi breytingum. Meirihlutinn leggur til að erindið verði sent á Umhverfisnefnd til skoðunar hvar nefndin sér fyrir sér svæði fyrir aðstöðu þjónustumiðstöðvar.
Sigrún Edda Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson -
Málsnúmer 2017030101.
Stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks.
Samkvæmt ákvörðun bæjarráðs frá 23. mars 2017 hefur stýrihópur verið starfandi á undanförnum mánuðum við stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á þjónustusvæði Seltjarnarnesbæjar. Stýrihópurinn hefur, til að tryggja að stefnan endurspegli áherslur og sýn fatlaðs fólks, lagt áherslu á að eiga samtöl og samráð við fatlað fólk, aðstandendur þeirra og hagsmunasamtök og einnig var boðað til íbúafundar. Nú hefur hópurinn lagt fram til bæjarráðs drög að stefnumótun í þessum málaflokki. Bæjarráð leggur til að drögin verði birt á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar í þeim tilgangi að kalla eftir frekari ábendingum og athugasemdum frá íbúum Seltjarnarnesbæjar, fólk verði hvatt til þess að kynna sér drögin og koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri. Farið er fram á að athugasemdir berist í síðasta lagi 15. apríl 2018. Þegar stefnan hefur verið afgreidd í bæjarstjórn, hefst vinna stýrihóps við framkvæmdaáætlun, sem gert er ráð fyrir að ljúki 31. maí 2018. Bæjarráð vill lýsa ánægju sinni með þessa góðu vinnu og þakkar öllum þeim sem komu að máli.
-
Málsnúmer 201510090.
Stefnumörkun ferðaþjónustu á Seltjarnarnesi.
Ráðgjafar frá fyrirtækinu Alta mættu á fund ráðsins og reifuðu málið eins og það kom þeim fyrir sjónir. Setja þarf fram leiðarljós og útbúa aðgerðaráætlun. Lagt er til að tengiliður við verkefnið verði María Björk Óskarsdóttir sviðstjóri. -
Málsnúmer 2018010275.
Úthlutun til Grunnskóla Seltjarnarness skólaárið 2018-2019.
Fræðslustjóri BP, mætti á fund ráðsins og kynnti drög að úthlutun fyrir árið 2018-2019, sem kynnt hafa verið í skólanefnd.
-
Málsnúmer 2018030080.
Bæjarstjóri gerði grein fyrir tilboði eiganda fasteignarinnar Ráðagerði fastanúmer 206-8884 við Norðurströnd við Snoppu á Seltjarnarnesi. Bæjarráð samþykkir með atkvæðum SEJ og BTÁ að kaupa eignina á kr. 100.000.000,-. GAS sat hjá. Bæjarstjóra falið að ganga frá samningum með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.
Bókun Samfylkingar
Undirritaður telur ekki tímabært að bærinn kaupi Ráðagerði þar sem bærinn er nú þegar búinn að margfalda skuldir sínar og stendur í fjölmörgum framkvæmdum. Bærinn er með forkaupsrétt á húsnæðinu í þinglýstum kaupsamningi sem heldur þrátt fyrir að húsið gangi kaupum og sölum. Bærinn getur því keypt húsnæðið þegar fjárhagsstaðan er betri og fyrst og fremst þegar það er gert með einhverri stefnu og markmiði að leiðarljósi.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga -
Málsnúmer 2018030070.
Viljayfirlýsing.
Bréf Vinnueftirlitsins varðandi viljayfirlýsingu um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Íslensk lög og reglur kveða á um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum skuli ekki liðið. Komi það upp skal bregðast við því með markvissum hætti. Bæjarstjóri leggur til að bærinn skrifi undir viljayfirlýsingu Vinnueftirlitsins, bæjarráð samþykkir tillögu bæjarstjóra. Einnig leggur bæjarstjóri til að samþykktir, stefnumörkun, verklagsreglur og viðbragðsáætlanir um einelti og áreitni, þ.m.t. kynferðislega áreitni verði yfirfarnar m.t.t. þess hvort nægjanlega skýrt sé kveðið á um að kynferðisleg eða kynbundin áreitni eða ofbeldi verði ekki liðið á starfsstöðvum Seltjarnarnesbæjar. Siðareglur kjörinna fulltrúa verði einnig yfirfarnar og gerðar tillögur um viðbætur sem taka á þessum atriðum eftir því sem við á. Bæjarráð samþykkir tillögu bæjarstjóra og felur henni að vinna áfram með málið.
-
Málsnúmer 2018030065.
Sorphirðugjöld.
Bæjarstjóri lagði fram uppfærðan texta í samræmi við athugasemd Heilbrigðiseftirlits Kjósasvæðis varðandi texta í gjaldskrá um sorphirðu í Seltjarnarnesbæ. Bæjarráð samþykkir uppfærða gjaldskrá sem nú er í samræmi við fjárhagsáætlun ársins 2018 og ábendingar Heilbrigðiseftirlits Kjósasvæðis.
-
Málsnúmer 2018020038.
Fullveldisafmæli Íslands 100 ára.
Erindi frá menningarnefnd. Umsókn um styrk vegna sýningar: ,,Earth homing: Reinventing Turf Houses“ í Lækningaminjasafninu um endurhönnun torfbæja í tenglum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Bæjarráð tekur jákvætt í erindi menningarnefndar, og samþykkir styrk að fjárhæð kr. 185.000,-. -
Málsnúmer 2016110017.
Innleiðing hágæða almenningssamgangna – borgarlína.
Bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 6.3.2018 ásamt fylgigögnum varðandi lokaafgreiðslu á breytingu á svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins 2040, hér er um lokaferli í svæðisskipulagsbreytingunum að ræða. Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins samþykkti á fundi sínum þann 2. mars 2018 breytingu á svæðisskipulaginu Höfuðborgarsvæðisins 2040 þar sem skilgreindar eru samgöngu- og þróunarásar fyrir Borgarlínu. Tillaga þessi er lögð fram í bæjarráði, bæjarráð samþykkir tillögurnar á grundvelli 2. mgr. 25. gr . laga nr. 123/2010 og 9. gr. laga nr. 105/2006.
-
Kjarasamningar grunnskólakennara.
Bréf grunnskólakennara dags. 8.3.2018 varðandi kjarasamninga sem nú eru lausir. Bæjarráð tekur undir sjónarmið grunnskólakennara á Seltjarnarnesi. Bæjarráð lýsir ánægju sinni með nýjan kjarasamning grunnskólakennara, sem undirritaður var nú í vikunni milli samninganefnda Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga til eins árs.
Bókun Samfylkingar
Undirritaður tekur undir áskorun kennara, mikilvægt er að bærinn marki sér skýra stefnu um hvernig hægt sé að fjölga grunnskólakennurum og gera Grunnskóla Seltjarnarness að eftirsóttum vinnustað fyrir nýútskrifaða kennara. Nú þegar eru starfandi leiðbeinendur sem ekki hafa leyfisbréf til grunnskólakennslu og fyrirséð er að stór hópur grunnskólakennara fari á eftirlaun á næstu árum og því mikilvægt að bregðast strax við.
Guðmundur Ari Sigurjónsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga -
Málsnúmer 2018020104.
Innleiðing persónuverndarlaga.
Bæjarstjóri upplýsti að vinna væri í fullum gangi hjá sviðstjórum bæjarins.
-
Málsnúmer 2017020055.
Viðauki við fjárhagsáætlun nr. 1.
Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 1, kr. 703.860.604,- til stækkun á íþróttamiðstöð. Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka nr. 1 við fjárhagsáætlun ársins samkvæmt 1. málsl. 2 mgr. 63 gr. Sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kostnaðarauka skal mætt með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
-
Málsnúmer 2018020036.
Viðauki við fjárhagsáætlun nr. 2.
Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 2, kr. 643.846.014,- vegna uppgjör við Brú lífeyrissjóðs. Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka nr. 2 við fjárhagsáætlun ársins samkvæmt 1. málsl. 2 mgr. 63 gr. Sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kostnaðarauka skal mætt með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:20