Fara í efni

Vímuefnaneysla heyrir sögunni til meðal ungmenna á Seltjarnarnesi

Síðastliðin þrjú ár eru reykingar óþekktar meðal allra grunnskólanema á Seltjarnarnesi og áfengisneysla heyrir nánast sögunni til. Þetta staðfesti Jón Sigfússon framkvæmdastjóri Rannsókna og greiningar í kynningu fyrir starfsfólk Seltjarnarnesbæjar nýverið.
Síðastliðin þrjú ár eru reykingar óþekktar meðal allra grunnskólanema á Seltjarnarnesi og áfengisneysla heyrir nánast sögunni til. Þetta staðfesti Jón Sigfússon framkvæmdastjóri Rannsókna og greiningar í kynningu fyrir starfsfólk Seltjarnarnesbæjar nýverið. Niðurstöðurnar er að finna í nýrri rannsókn sem fyrirtækið gerð í febrúar síðastliðnum meðal 8.-10. bekkinga um land allt. Sams konar mælingar hafa staðið yfir í um 15 ár og eru niðurstöðurnar afar þýðingarmiklar fyrir Seltjarnarnesbæ, sem hefur unnið stórsigur í vímuefnavörnum með markvissu átaki. Árið 1998 var staðan þannig á Seltjarnarnesi að 60% nemenda í 10. bekk höfðu orðið ölvaðir einu sinni eða oftar síðastliðna 30 daga. Á síðasta ári  fyllti enginn þennan hóp og aðeins 4%, eða 2 ungmenni féllu undir þessa skilgreiningu í könnuninni á þessu ári. 

Að sögn Jóns er árangurinn einstakur fyrir sveitafélagið, sem var í miklum vanda fyrir nokkrum árum síðan. Hann segir mikilvægt að byggja forvarnarvinnu á niðurstöðum og slaka hvergi á þó að vel ári.

Í niðurstöðunum kemur fram að á landsvísu sé vímuefnaneysla meðal grunnskólabarna einna minnst á Seltjarnarnesi. Undir neysluna falla daglegar reykingar, munn- og neftóbaksnotkun, ölvunardrykkja og neysla ólöglegra fíkniefna. Frá 2010 mælist hassneysla, maríjuananeysla, nef- og munntóbaksneysla auk annarrar vímuefnaneyslu óveruleg.

Þessu er m.a. að þakka öflugum samráðshópi* um áfengis- og vímuvarnir sem starfræktur hefur verið í bæjarfélaginu frá árinu 1998 þegar ástandið var hvað verst. Hópurinn er fjölskipaður aðilum sem hafa á einn eða annan hátt afskipti af ungmennum bæjarins, en formaður hópsins er Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, sem hefur gengt því hlutverki frá upphafi , einnig áður en hún varð bæjarstjóri. 

Sigrún Hvanndal Magnúsdóttir yfirfélagsráðgjafi bæjarins er verkefnastjóri hópsins og segir þennan stórkostlega árangur megi þakka eftirfylgni samráðshópsins, sem merkir það mjög fljótlega ef hann slær slöku við. Hún segir þetta vera langhlaup sem krefjist þolinmæði, en nú sé samfélagið að uppskera ríkulegan árangur. Hópurinn hittist 3-4 sinnum á ári og starfar launalaust. 

Sem hluta af forvarnarverkefninu var fyrir nokkrum árum sett á laggirnar ungmennafélag, sem er með öfluga starfsemi og bærinn styður dyggilega við á ýmsan máta. Nú fyrir skemmstu ákvað bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar að bæta enn betur í og opna Ungmennahús í haust. Undirbúningur er nú yfir í fullum gangi. Húsið er ætlað öllum ungmennum 16 ára og eldri og þar verður í boði skemmtidagskrá, fræðslukvöld, klúbbar og námskeið.


Hér að neðan eru helstu niðurstöðurnar úr könnunni, sem Jón Sigfússon framkvæmdastjóri Rannsókna & greiningar kynnti fyrir Seltjarnarnesbæ. Í niðurstöðunum var Seltjarnarnesbær borinn saman við höfuðborgarsvæðið annars vegar og landið allt hins vegar. 

  • Þrjú síðastliðin ár eru reykingar óþekktar meðal ungmenna í 8.-10. bekk á Seltjarnarnesi. 
  • Árið 1998 höfðu 60% nemenda í 10. bekk orðið ölvaðir einu sinni eða oftar síðastliðna 30 daga. Í fyrra fyllti enginn þennan hóp og aðeins 4% (2 ungmenni) árið 2013.
  • Frá 2009 er áfengisneysla meðal 9. bekkinga engin í þrjú ár og óveruleg hin árin.
  • Frá árinu 2007 er það sama að segja um 8. bekkinga.
  • Frá árinu 2012 hefur enginn 10. bekkingur neytt hass. Það sama var upp á teningnum árið 2010 og örlítið frávik 2011.
  • Það sama gildir um 9. bekkinga. 
  • Hassneysla er óþekkt meðal 8. bekkinga frá 2011, og hefur verið óveruleg um langt skeið.
  • Frá 2011 hefur enginn 10. bekkingur neytt marijúana
  • Það sama gildir um 8. og 9. bekkinga með örlitlu fráviki.
  • Neysla amfetamíns er óþekkt í öllum bekkjum frá árinu 2010.
  • Neysla hvers konar annarra vímuefna er óþekkt frá 2011 og hefur verið engin eða óveruleg frá 2006.
  • Neysla munntóbaks er óþekkt í öllum bekkjum frá 2012.
  • Neysla neftóbaks er óþekkt í öllum bekkjum frá 2011.

*Aðrir sem skipa hópinn eru:
 Félagsmálastjóri Snorri Aðalsteinsson
Félagsráðgjafi/Hildigunnur Magnúsdóttir
Framkvæmdastjóri íþrótta og tómstundasviðs/Haukur Geirmundsson
Skólastjóri grunnskólans/Guðlaug Sturlaugsdóttir
Selið/Margrét Sigurðardóttir
Æskulýðs-og íþróttaráð/ Lárus Lárusson
Skólanefnd Seltjarnarness/Sigrún Edda Jónsdóttir 
Félagsmálaráð/ Ragnar Jónsson
Úr stjórn foreldrafélags grunnskólans/Edda Björk Andradóttir
Deildarstjóri unglingadeildar grunnskólans/Helga Kristín Gunnarsdóttir
Námsráðgjafar grunnskólans/Rannveig Óladóttir og Kristín Sverrisdóttir
Vinnuskólinn/ Steinunn Árnadóttir
Bæjarverkstjóri/Jón Ingvar Jónsson
Lögreglan á Seltjarnarnesi/Guðmundur Sigmundsson 
Grótta/Kristín Finnbogadóttir/Bjarni Torfi Álfþórsson
Heilsugæslustöð Seltjarnarness/Ingibjörg Davíðsdóttir
Kirkjan/ Sr. Bjarni Þór Bjarnason
Nánari upplýsingar veitir undirrituð. 
Einnig er hægt að hafa samband við Jón Sigfússon framkvæmdastjóra hjá Rannsóknum og greiningu s: 599-6431 
og Sigrúnu Hvanndal Magnúsdóttur yfirfélagsráðgjafa Seltjarnarness s: 595-9132.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?