Fara í efni

Stækkun fimleikahúss - skýrsla unidrbúningshóps

Undirbúningshópur um stækkun fimleikahúss var skipaður af bæjarstjórn Seltjarnarness í maí 2009.

ÍþróttamiðstöðUndirbúningshópur um stækkun fimleikahúss var skipaður af bæjarstjórn Seltjarnarness í maí 2009. Í undirbúninghópnum voru: Lárus B. Lárusson formaður, Felix Ragnarsson, Guðrún Kaldal, Friðrika Harðardóttir. Með nefndinni störfuðu jafnframt sviðsstjórar íþróttamála og umhverfis- og tæknisviðs. Hópurinn hélt sinn fyrsta fund 1. júní 2009. 

Undirbúningshópurinn tók nokkrum breytingum á starfstíma nefndarinnar og í endanlegum vinnuhópi sátu Lárus B. Lárusson formaður hópsins og bæjarfulltrúi, Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi, Unnur Halldórsdóttir fulltrúi aðalstjórnar Gróttu, Hildur Sesselja Aðalsteinsdóttir formaður fimleikadeildar Gróttu og Haukur Geirmundsson íþróttafulltrúi starfaði með hópnum. ASK arkitektar ehf sem hönnuðu nýrri hluta íþróttamiðstöðvarinnar, voru kallaðir til samráðs og unnu með hópnum við undirbúning. 

Meginverkefni undirbúningshópsins var að vinna forsögn og móta tillögur að hvernig best yrði staðið að endurbótum aðstöðu til íþróttaiðkunar á Seltjarnarnesi til framtíðar og m.a. koma allri starfsemi fimleikadeildar Gróttu undir eitt þak. Einnig var hlutverk hópsins að vinna að stefnumótun, fá heildarsýn og kostnaðargreiningu á verkefnið, vinna tillögur með helstu hagsmunaaðilum og jafnframt því að vera bæjarstjórn Seltjarnmarness til ráðgjafar. 

Fimleikadeild Gróttu skipaði bakhóp sem fjalla skyldi sérstaklega um áherslur fimleikadeildarinnar varðandi undirbúning að stækkun fimleikahúss. Í bakhópnum sátu Friðrika Harðardóttir, formaður fimleikadeildar, Jórunn Þóra Sigurðardóttir, fyrrv. formaður og þáverandi gjaldkeri deildarinnar, Sesselja Hannele Jarvela og María Björg Magnúsdóttir yfirþjálfarar og Gabor Kiss, þjálfari meistaraflokks.

Lokaskýrsla hópsins: „Skýrsla starfshóps um framtíð fimleika á Seltjarnarnesi“ var lögð fram á 479. fundi fjárhags og launanefndar Seltjarnarness 12. sept. sl.

Vinnuhópurinn telur þær hugmyndir sem hér eru settar fram skynsamlegar, en jafnframt raunhæfar áætlanir um frekari uppbyggingu íþróttamiðstöðvar Seltjarnarness. Unnið hefur verið á grunni þeirra gagna sem lágu fyrir og þeirra markmiða sem vinnuhópurinn setti sér. Tillögunar uppfylla að mati vinnuhópsins allar þær forsendur sem settar voru fram af undirbúningshópnum í upphafi þessa

verkefnis og jafnframt telur nefndin að hér sé komið til móts við flestar óskir íþróttahreyfingarinnar á Seltjarnarnesi. Eitt af meginverkefnum var að bæta og skapa betri aðstöðu fyrir fimleikadeild Gróttu en með því að horfa til framtíðar og á íþróttamiðstöðina sem heild þá bera tillögunar þess merki að þeim er ætlað að styrkja enn betur stoðir þeirra íþrótta sem eru iðkaðar í öðrum deildum Gróttu. Með skýrslunni liggja fyrir frumdrög uppdrátta og telur vinnuhópurinn að vel hafi tekist til og telur framkomnar hugmyndir látlausar, falli vel að öðrum byggingum á svæðinu og að nýting húsnæðis sé góð.Vinnuhópurinn telur það ákaflega mikilvægt að horft sé til betri samnýtingar á íþróttamiðstöðinni og sömuleiðis að flestar deildir verði sameinaðar á einum stað með sína aðstöðu.

Í skýrslunni kemur fram að verkinu er skipt í sjö áfanga. Það er skoðun vinnuhópsins að mikilvægt sé að tekin verði ákvörðun um að ráðast í fyrstu fjóra áfangana í einum verkhluta. Seinni áfanga má framkvæma á þeim hraða sem aðstæður leyfa.Að lokum vill nefndin koma á framfæri þökkum til

ASK arkitekta fyrir samvinnuna við gerð skipulags- og frumdraga að stækkun íþróttamiðstöðvarinnar.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?