Fara í efni

Kanon arkitektar sigra í hugmyndasamkeppni um nýjan miðbæ á Seltjarnarnesi

„Áhugavert rými milli reita, opnun Eiðistorgs í átt að Nesvegi og framlenging á vistlegum göturýmum upp með Nesvegi að Kirkjubraut sem myndar tengingu við samfélagsþjónustu", eru meðal helstu styrkleika tillögu Kanon arkitekta, sem báru sigur úr býtum í samkeppni um nýjan miðbæ á Seltjarnarnesi

„Áhugavert rými milli reita, opnun Eiðistorgs í átt að Nesvegi og framlenging á vistlegum göturýmum upp með Nesvegi að Kirkjubraut sem myndar tengingu við samfélagsþjónustu", eru meðal helstu styrkleika tillögu Kanon arkitekta, sem báru sigur úr býtum í samkeppni um nýjan miðbæ á Seltjarnarnesi, en verðlaunaafhending fór fram í gær, fimmtudaginn 17. desember, í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi. 

Næstu skref

Bæjarstjórn tekur nú við niðurstöður dómnefndar og ákvarðar hvernig ræða skal í bæði skipulagsnefnd og bæjarstjórn. T.d. hvort vinnsla á nýju aðalskipulagi setji gagnkvæmt ný sjónarhorn og hvort ráðgjarfi, höfundar eða höfundar kynni tillögur eða vinningstillögu. Með þeirri umræðu koma væntanlega fram hugleiðingar og gjarnan mótaðar tillögur um forsögn að gerð deiliskipulags. Forsenda vinnu samkeppnisaðila var núverandi byggð og þeim voru ekki sett nein mörk og hugmyndir því orðið til án áhrifa bæjaryfirvalda en mótast af þeirri vinnu með sem þeir kusu að vinna með bæjarbúum og hagsmunaaðilum á svæðinu að eigin frumkvæði.Forsögn að deiliskipulagsvinnunni og lýsing verkefnisins fer síðan í hefðbundið ferli sem skipulagslög mæla fyrir um.

Hugmyndasamkeppnin og hugmyndir ráðgjafa

Hugmyndasamkeppni um skipulag á nýjum Miðbæ á Seltjarnarnesi hófst í byrjun nóvember og náði samkeppnin til þriggja reita: Eiðistorgs, Austurstrandar og Melhúsareits þar sem leikskólar bæjarins eru. Samkeppninni var ætlað að draga fram hugmyndir sem skapa áhugavert bæjarrými til frekari þróunar og tengja reitina betur saman sem samhangandi heild. Ætlunin var að svæðið geti byggst upp til að mæta þörf fyrir fjölbreyttari gerðir íbúðarhúsnæðis, sterkara atvinnusvæði og varðveislu þjónustu í bænum. Einnig að tekið yrði tillit til nærliggjandi þjónustu bæjarins á stofnana- og íþróttasvæðum, líkt og segir í samkeppnislýsingu. 
 
Keppnin var með því sniði að þremur aðilum var boðið að taka þátt og skyldi ein tillaga verðlaunuð. Auk Kanon arkitekta var Hornsteinum boðin þátttaka og Trípólí arkitektum í félagi við VA arkitekta. Tvær tillögur bárust, en auk vinningstillögu Kanon arkitekta barst tillaga frá Trípólí / VA.

Dómnefnd var skipuð Sigrúnu Eddu Jónsdóttur, Guðmundi Ara Sigurjónssyni og Gesti Ólafssyni. Ritari dómnefndar var Sverrir Bollason.  Dómnefndin lagði til að tillaga Kanon skyldi verðlaunuð þar sem hún leysir á farsælan hátt samtengingu allra reitanna þriggja og tengir þá vel samfélagsstofnunum með útfærslu á Nesvegi að Kirkjubraut. Hún skapar opin, skjólgóð og sólrík almenningsrými. Þá er uppbygging við Austurströnd talin áhugaverð fyrir verðandi íbúa með góðum útirýmum og hagkvæmri lausn bílastæða. 
 
Nú þegar fyrir liggur nýtt svæðisskipulag fyrir Höfuðborgarsvæðið þar sem m.a. er fjallað um hraðvirkar almenningssamgöngur á svokallaðri Borgarlínu er Seltjarnarnes að stimpla sig inn í umræðuna með eftirtektarverðum hætti. Bæði verða stöðvar á Borgarlínunni seglar fyrir þróun byggðar en ekki síður er þróun byggðar forsenda þess að slíkar stöðvar verði til. Með þeim tillögum sem lagðar voru fram er tónninn sleginn fyrir uppbyggingu íbúða og atvinnu sem nýta tækifærin í Borgarlínunni og styðja við þá ákvörðun að byggja upp stoppistöð á Seltjarnarnesi.

Tillögurnar eru til sýnis í Bókasafni Seltjarnarness á Eiðistorgi og verða þar til áramóta. Vonast er til að báðar tillögur og sér í lagi sigurtillagan vísi veginn þegar kemur deiliskipulagsgerð á hverjum reit fyrir sig en umræður og ákvarðanir um slíkt munu væntanlega fara fram vettvangi bæjarstjórnar og nefnda hennar á næstu misserum. 
 
Umsagnir um tillögurnar:
Helstu styrkleikar tillögunnnar eru: Áhugavert rými milli reita, opnun Eiðistorgs í átt að Nesvegi og framlenging á vistlegum göturýmum upp með Nesvegi að Kirkjubraut sem myndar tengingu við samfélagsþjónustu. Þá eru sköpuð ný torg á reit Eiðistorgs sem eru líkleg til að verða vel nýtt almenningssvæði með fjölbreyttum notum. Hugmynd um aðkomugarð að bílastæðahúsi opnar mismunandi nýtingarmöguleika. 
Byggingar eru vel nýttar til skjólmyndunar á öllum reitum.  Uppbygging íbúða við Austurströnd gefur völ á hagkvæmri uppbyggingu, skapar skjólgóða garða til útivistar fyrir íbúa. 
 
Helstu styrkleikar tillögunnar eru: Á Eiðistorgi er búið til nýtt áhugavert útitorg sunnan við yfirbyggt torg og þau tengd vel saman. 
Tenging milli Eiðistorgs og Austurstrandar er sterk og afgerandi. Endurnýjað Eiðistorg fær þannig beintengingu við hina nýju íbúðabyggð við Austurströnd. Tillaga að byggð á Melshúsareit, M3 er í góðu samræmi við byggð í nágrenninu og skapar vistlegan almenningsgarð. Uppbrot íbúðarbyggðarinnar í tillögunni er aðlaðandi. 
 
Halldóra Kristín Bragadóttir, Þórður Steingrímsson, Sigrún Edda Jónsdóttir, Gestur Ólafsson, Guðmundur Ari Sigurjónsson og Sverrrir Bollason
Hér má sjá verðlaunatillöguna uppstillta á milli arkitekta frá Kanon, þeirra Halldóru Kristínar Bragadóttur og Þórðar Steingrímssonar og dómnefndarmanna; Sigrúnar Eddu Jónsdóttur, Gestar Ólafssonar, Guðmundar Ara Sigurjónssonar og ritara nefndarinnar Sverris Bollasonar.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?