Fara í efni

Seltjarnarnes eitt öruggasta búsetusvæðið

Búseta á Seltjarnarnesi er ein sú öruggasta á landinu sé litið til tíðni afbrota og slysa samkvæmt nýjum niðurstöðum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kynnti á árlegum haustfundi sínum í bæjarfélaginu. 
Seltjarnarnes eitt öruggasta búsetusvæðið
Búseta á Seltjarnarnesi er ein sú öruggasta á landinu sé litið til tíðni afbrota og slysa samkvæmt nýjum niðurstöðum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kynnti á árlegum haustfundi sínum í bæjarfélaginu, en fá sveitafélög búa við jafn lága afbrota- og slysatíðni og íbúar Seltjarnarness. Sem dæmi um það voru engin ofbeldisbrot tilkynnt lögreglunni frá íbúum Seltjarnarness frá janúar til október á þessu ári og svipað ástand hefur varað undanfarin ár. Þessi og fleiri jákvæð tíðindi komu fram á fundinum sem lögreglan hélt á bæjarskrifstofum Seltjarnarness mánudaginn 21. október. „Það er býsna gott ástand á Seltjarnarnesi og mjög jákvætt hversu hópamyndanir barna eru litlar og afbrot eru fátíð hjá ykkur“, sagði Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn sem kynnti niðurstöðurnar ásamt félögum sínum. Í kynningunni var Seltjarnarnesbær borinn saman við höfuðborgarsvæðið og kom í öllum tilfellum betur út, en þess ber þó að geta að höfuðborgarsvæðið hefur verið á stöðugri uppleið, sem er jákvætt fyrir alla.
Fjöldi tilkynntra þjófnaðainnbrota á heimili á Seltjarnarnesi frá janúar til október 2013 hefur fækkað úr 0,9 í 0,7 á hverja 1000 íbúa, sem er óverulegt. Fjöldi tilkynntra eignarspjalla fer verulega niður á við á þessu ári og aðeins er skráð eitt slys, hjólreiðaslys, á þessu tímabili. Í kynningunni kom fram að öflugt forvarnarstarf meðal ólíkra hagsmunahópa í bæjarfélaginu hafi skilað góðum árangri og slíkt endurspegli líka góða framgöngu ungmenna í bæjarfélaginu.

Íbúar í öruggu umhverfi
Lögreglan framkvæmdi einnig þolendakönnun en þar kom fram að 100% íbúa á Seltjarnarnesi eru ánægðir með störf lögreglunnar, en það hlutfall er 90% á höfuðborgarsvæðinu. Í niðurstöðum kom fram að 56% íbúa finnst lögreglan aðgengileg á Nesinu, sem þyrfti að lagfæra að mati lögreglunnar og 62% aðspurðra fannst vanta lögreglu á Nesið. 96% aðspurðra telja sig vera örugga eina á gangi í sínu byggðarlagi.
Á fundinum báru fundargestir upp spurningar sem á þeim brunnu m.a. hvernig lögreglan væri að bregðast við fréttum af mönnum sem byðu börnum upp í bíl til sín og rakti lögreglan það ferli sem færi af stað þegar slíkar ábendingar bærust, en þau mál eru alltaf í forgangi að sögn lögreglu. Á fundinum var einnig rætt um fyrirhugaðar þrengingar á helstu flutningsæðum Seltirninga og hvort lögreglan hefði aðkomu að slíkum ákvarðanatökum, m.t.t. rýmingaáætlunar. Sagði lögreglan svo vera í sumum tilfellum en ekki alltaf. 
Á meðfylgjandi glærum sést tíðni algengra brotaflokka á Seltjarnarnesi, borið saman við höfuðborgarsvæðið í heild sinni ásamt niðurstöðum úr könnun á viðhorfi almennings til lögreglunnar. 
Haustfundur, Kristján Ólafur Guðnason, Ásgerður Halldórsdóttir, Rannveig Þórisdóttir, Þórir Ingvarsson, Hákon Sigurjónsson.Haustfundur, íbúaöryggiHaustfundur, íbúaöryggiHaustfundur, íbúaöryggi
Á myndinni eru: Kristján Ólafur Guðnason, Ásgerður Halldórsdóttir, Rannveig Þórisdóttir, Þórir Ingvarsson
 og Hákon Sigurjónsson.

Glærur frá fundi lögreglu og íbúa á Seltjarnarnesi október 2013:  Seltjarnarnes-1


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?