Samkomulag um samgöngumál í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins.
Um miðjan desember undirrituðu Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri og Einar Þorsteinsson borgarstjóri samkomulag um samgöngur í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins. Samkomulag þetta tekur við af samkomulagi frá árinu 2013 og tekur á stór aukinni upplýsingagjöf borgarinnar, Veitna og Vegagerðar til Seltjarnarnesbæjar. Einnig felur samkomulagið í sér tryggingu að flæði umferðar verði sem best til að mynda með því að torgið við gatnamót Hringbrautar og Ánanausta verði áfram á sínum stað en áform voru uppi um breytingu í ljósastýrð T-gatnamót sem Seltirningar töldu engan veginn henta þarna.
BAKGRUNNUR
(A) Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær gerðu með sér samkomulag dags. 12. nóvember 2013 vegna endurskoðunar svæðisskipulags þar sem aðilar sammæltust um að tryggja gott umferðarflæði í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins. Samkomulagið frá 2013 fjallar m.a. um atriði í fjórum töluliðum sem aðilarnir lofuðu að vinna að í sameiningu.
(B) Í gildi er svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem nefnist Höfuðborgarsvæðið 2040 sem samþykkt var í júní 2015. Höfuðborgarsvæðið 2040 er sameiginleg stefna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins til 2040.
(C) Með tilvísun í áherslur sem markaðar voru með samkomulaginu frá 2013 eru aðilar því sammála um að leggja enn meiri áherslu á samstarf þegar kemur að þróun samgöngu- og skipulagsmála og skerpa á mikilvægi greiðrar og öruggrar umferðar í þágu íbúa í vesturhluta Reykjavíkurborgar og í Seltjarnarnesbæ.
(D) Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær gera því með sér eftirfarandi samkomulag um samgöngumál í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins.
Aðilar eru sammála um eftirfarandi:
1. Borgarstjóri Reykjavíkurborgar og bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, ásamt forstjórum Vegagerðarinnar, Betri samgangna og Veitna auk samgöngustjóra Reykjavíkurborgar, eigi samráðsfundi um umferðarflæði, aðgengi og umferðaröryggi í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins tvisvar á ári eða fyrir lok mars og október ár hvert. Á samráðsfundum þessum verði farið yfir verkefni þessa samkomulags auk verkefna svæðisskipulags í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins, stofninnviðakerfi, sem og fyrirhugaðar framkvæmdir auk annarra brýnna verkefna. Borgarstjóri Reykjavíkur boðar fundina og heldur utan um dagskrá og fundargerðir.
2. Reykjavíkurborg samþykkir með þessu samkomulagi að senda án undantekninga tölvupóst á netfangið postur@seltjarnarnes.is um lokanir gatna eða fyrirhugaðar framkvæmdir sem valdið geti umferðartöfum í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins til að unnt sé að kynna íbúum bæjarins tímanlega um fyrirhugaðar lokanir og hjáleiðir.
3. Aðilar lofa að vinna sameiginlega að því að gera viðeigandi ráðstafanir og tryggja greiða umferð svo aðkoma viðbragðsaðila sé sem best og stuðla þannig að því að viðbragðstími í vesturhluta Reykjavíkurborgar og á Seltjarnarnesi sé sem stystur.
4. Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að sjá til þess að samráð sé haft við Seltjarnarnesbæ um allar fyrirhugaðar breytingar á þjóðvegum og gatnamótum þeirra, í vesturhluta Reykjavíkur sem tengjast Seltjarnarnesi, þ.e. Hringbraut og Eiðsgranda en Vegagerðin fer með veghald þjóðvega. Í því felst að Seltjarnarnesbæ standi til boða að fulltrúi hans sitji og taki þátt í hönnunar- og undirbúningsfundum vegna þeirra breytinga. Vegagerðin hefur staðfest að engar breytingar á gatnamótum við Hringbraut eða á veginum sjálfum eru fyrirhugaðar. Vegagerðin hefur jafnframt staðfest að allar breytingar á Hringbraut verða unnar í samstarfi við Seltjarnarnesbæ. Þá mun Reykjavíkurborg að hafa ekki frumkvæði að því að fækka akreinum á Hringbraut eða að breyta núverandi hringtorgi á mótum Hringbrautar, Eiðsgranda og Ánanaustar í T-gatnamót.
5. Aðilar eru sammála um að hafa samráð um útfærslu og rekstur göngu- og hjólastíga við götur sem einkum eru nýttar af íbúum beggja sveitarfélaga, t.d. á Nesvegi þannig að leiðir gangandi og hjólandi vegfarenda séu samfelldar og samræmdar yfir sveitarfélagamörk.
6. Aðilar skuldbinda sig til að beita sér sameiginlega fyrir því að íbúar Seltjarnarness og Vesturbæjar Reykjavíkur geti notað Strætó til að komast að og frá verslunar- og þjónustusvæði á Granda og við Fiskislóð.
7. Aðilar skuldbinda sig til að vinna markvisst að því að bæta umferðarljósastýringar sem og ljósastýringar á gangbrautaljósum í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins til að lágmarka biðtíma allra vegfarenda með áherslu á forgang viðbragðsaðila og auka umferðarflæði og draga úr mengun. Í því samhengi setur Reykjavíkurborg í forgang að vinna að því með Vegagerðinni og Betri samgöngum að bæta enn frekar umferðarstýringu á Hringbraut með frekari aðlögun stýringar með skynjurum (e. adaptive traffic control). Seltjarnarnesbæ stendur til boða að taka þátt í þeim undirbúningi, sbr. lið 4 hér að ofan.
12. desember 2024