Fara í efni

Viðsnúningur í rekstri - samþykkt fjárhagsáætlun 2025

Fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar við síðari umræðu miðvikudaginn 11. desember 2024. Þriggja ára áætlun 2026-2028 var einnig samþykkt.

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðu Seltjarnarnesbæjar verði jákvæð um 144 m.kr. Niðurstaða A–hluta verði jákvæð um 4.m.kr. Niðurstaða B-hluta verði jákvæð um 140 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 760 m.kr. á samstæðuna.

Viðsnúningur í rekstri Seltjarnarnesbæjar, sterkar tekjur og aðhald leggja grunn að stórbættum rekstri.

Fjárhagsáætlun ársins 2025 fyrir auk þriggja ára áætlunar 2026-2028 liggur nú fyrir og sýnir glögglega að mikill viðsnúningur er að eiga sér stað í grunnrekstri bæjarins. Aðhaldskrafa er á öllum sviðum en miklu munar að þungar gjaldfærslur vegna myglu í grunnskólanum heyra brátt sögunni til. Skatttekjur eru að aukast um 10% og framlög Jöfnunarsjóðs styrkjast um ríflega 290 m.kr. Sjást þar merki um skynsama og velheppnaða ákvörðun bæjaryfirvalda um að gera grunnskólann að tveimur sjálfstæðum einingum auk hærri framlaga til málaflokks fatlaðra sem bæjarstjórn hefur lengi barist fyrir.

Álagning skatta helst óbreytt, en taka ber fram að skatttekjur á íbúa eru hvað hæstar á landsvísu á Seltjarnarnesi. Góður viðsnúningur er að nást í krefjandi umhverfi og það án þess að grípa þurfi til skattahækkana. Gjaldskrár bæjarfélagsins hækka flestar um 6% með frávikum. Hækkanir gjaldskráa eru nauðsynlegar til að halda í við verðlagsþróun og kjarasamningsbundnar launahækkanir sem eru umtalsverðar.

Afar jákvætt er að sjá að rekstrarafgangur er af bæði A hluta og samstæðu eða 4 m.kr. af A hluta og 144 m.kr. af samstæðu. Það er merki um jákvæðan og mikinn viðsnúning í rekstri eða um um 800 m.kr. bati sem er að eiga sér stað í rekstri Seltjarnarnesbæjar.

Veltufé frá rekstri samstæðu, sem er lykiltala í rekstri bæjarfélaga, styrkist umtalsvert á milli ára og er nú 764 m.kr. samanborið við 211 m.kr. á þessu ári 2024, þegar gjaldskrár vegna mygluframkvæmda stóðu sem hæst. Veltufé segir til um fjárfestingargetu bæjarfélagsins og getu til að standa undir lánum. Nemur veltufé frá rekstri í lok árs um 11% og eykst hlutfallið á næstu árum. Framlegðarhlutfall af rekstri er 8,8% sem er einnig vel yfir viðmiðum.

“Eignir hafa verið seldar. Munar þar mestu um fasteignina að Safnatröð 1 sem hýsir Hjúkrunarheimilið Seltjörn. Áfram er markvisst leitað allra leiða til hagræðingar og til að styrkja efnahag t.d. með skoðun hugmynda á þróunarreitum í eigu bæjarins. Með lækkandi verðbólgu- og vaxtastigi gerum við ráð fyrir að grunnreksturinn styrkist enn frekar enda hefur verðbólga leikið sveitarfélög grátt á síðustu misserum”.

Engin lán voru tekin á árinu 2024 og íþyngjandi skammtímaskuldir voru greiddar upp. Skuldahlutfall er 108% og fer hratt lækkandi næstu ár. Skuldaviðmið, hvar búið er að draga frá skuldbindingar, verður 88% í lok ársins. Það má hæst vera 150%. Lýsir það afar sterkri fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Við höfum á sama tíma stóraukið fjármálastjórn og áætlanagerð og eftirfylgni og aðhald.

Rekstur Veitna bæjarins hefur tekið stakkaskiptum og eru þær nú sjálfstæðari og mun betur tækjum búnar en hin fyrri ár. Nýleg borhola Hitaveitu Seltjarnarness hefur reynst afar vel og styrkt okkar góða fyrirtæki til lengri tíma. Vinnsluborholur eru nú sex talsins og er Seltjarnarnesbær því alveg sjálfbær með heitt vatn.

Bærinn hefur staðið í afar kostnaðarsömum stórframkvæmdum við viðgerðir skólahúsa sökum myglu. Þær framkvæmdir hafa gengið framar vonum á því rúma ári sem þær hafa staðið. Nú er svo að neyðarviðgerðum húsanna er að mestu lokið en þó eru stór verkefni eftir svo sem klæðning utanhúss á Valhúsaskóla og þakviðgerð Mýrarhúsaskóla. Þeim framkvæmdum má áfangaskipta. Það er full ástæða að þakka nemendum, foreldrum og starfsfólki þessara stofnana fyrir jákvætt og gott samstarf. Ég er verulega stoltur af því hversu vel þetta mikla og snúna verkefni hefur gengið á því rúma ári sem viðgerðir hafa staðið yfir samhliða kennslu í báðum skólunum.

Fram undan er bygging leikskóla og verður fyllsta aðhalds gætt við það stóra verkefni sem mun fara af stað í ársbyrjun 2025.

Fjárhagsáætlun ársins 2025 sýnir svo sannarlega ábyrgð, elju og árangur okkar í að ná tökum á grunnrekstri bæjarins og sýnir það og sannar að vel er haldið í taumana á rekstri bæjarfélagsins hér eftir sem hingað til.

segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.

Nánar um forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2025

Verðbólga:

  • Meðaltal birtra verðbólguspáa sem Sambandið gefur út, með 1% varúðarálagi ofan á eða 5,1%.

Tekjur:

  • Útsvar - álagningarhlutfall er óbreytt á milli ára eða 14,54%.
  • Gert er ráð fyrir 7% hækkun á útsvari milli ára, 5% vegna áætlaðrar hækkunar launa og 2% vegna fólksfjölgunar
  • Fasteignagjöld eru óbreytt milli ára:
    - Fasteignaskattur, A-hluti – íbúðarhúsnæði: álagningarhlutfall 0,166%, af fasteignamati
    - Fasteignaskattur, B-hluti – opinbert húsnæði: álagningarhlutfall 1,32% af fasteignamati
    - Fasteignaskattur, C-hluti – atvinnuhúsn. og óbyggt land: álagningarhl.1,154% af fasteignamati
    - Lóðarleiga: A-hluta: verður 0,40% og B-hluta 1,75% af fasteignamati lóðar
    - Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,0855% af fasteignamati
    - Sorphirða: Kr. 75.000,- á hverja eign
    - Fráveitugjald: 0,1425% af fasteignamati
  • Gjalddagar fasteignagjalda: 10
  • Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um

Íbúafjöldi:

  • Gert er ráð fyrir 2% fjölgun íbúa eða ca. 100 íbúa á árinu

Gjöld:

  • Gjaldskrár hækka um 6% með frávikum

Gjöld:

  • Gert er ráð fyrir 4,0% á rekstrarliðum einstakra deilda frá fjárhagsáætlun 2024
  • Gert er ráð fyrir launahækkunum á bilinu 3,5% - 5% og tekur það mið af þeim samningum sem nú þegar er búið að ljúka

Fundir nefnda:

  • Fundarfjöldi nefnda óbreytt frá fjárhagsáætlun 2024

Lántaka:
- Ekki er gert ráð fyrir lántöku á árinu 2025

 

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn þann 11. desember 2024


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?