Þátttakendur:
Skólanefnd: Bjarni Torfi Álfþórsson, Gunnar Lúðvíksson, Lárus B. Lárusson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Árni Einarsson. Lúðvík Hjalti Jónsson framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, Hrafnhildur Sigurðardóttir leikskólafulltrúi, Dagrún Ársælsdóttir leikskólastjóri. Margrét Harðardóttir grunnskólafulltrúi, Regína Höskuldsdóttir og Sigfús Grétarsson skólastjórar Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla, Fjóla Höskuldsdóttir og Þórunn Halldóra Matthíasdóttir fulltrúar kennara grunnskólanna.
Leikskóli:
1. Lagt fram svarbréf stjórna foreldrafélaga leikskólanna um viðbótar námsdag vegna námsferðar leikskólakennara til Madríd. Fulltrúar meirihluta í skólanefnd hafna beiðni leikskólakennara um viðbótar námsdag en fulltrúar minnihluta sitja hjá (Fskj. 142-1).
Fulltrúar leikskóla viku af fundi kl. 17:00.
Grunnskóli:
1. Reiknilíkan fyrir skólaárið 2004-2005 vegna úthlutunar tímamagns til grunnskólanna lagt fram til kynningar (Fskj. 142-2).
2. Skóladagatal grunnskólanna lagt fram (Fskj. 142-3).
3. Fundargerðir byggingarnefndar Mýrarhúsaskóla, dagsettar 12. og 31. mars 2004 lagðar fram. Óskað er eftir að byggingarnefnd skili kostnaðaráætlun vegna mötuneytis í Mýrarhúsaskóla (Fskj. 142-4).
4. Lagt fram svar meirihlutans við bréfi kennararáðs Mýrarhúsaskóla, dagsett 12. febrúar 2004, sem lagt var fram á 137. fundi 16. febrúar 2004 (Fskj. 142-5).
Fulltrúar Neslista leggja fram eftirfarandi bókun vegna bréfs Óskars Norðmann hdl. Bréfið er álit lögfræðingsins á vinnubrögðum embættismanna og meirihluta skólanefndar á Seltjarnarnesi á klögumáli sem sent var til bæjarstjóra 20. október 2003.
„Í kjölfar greinargerðar framkvæmdastjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs Seltjarnarnesbæjar og niðurstöðu hans að ekki sé tilefni eða forsendur fyrir neinum aðgerðum vegna meintrar umfjöllunar skólastjóra Mýrarhúsaskóla og eins kennara við skólann um fyrirhugaða sameiningu grunnskólanna óskaði kennararáð Mýrarhúsaskóla eftir því að skólanefnd lyki málinu formlega með því að umræddir starfsmenn væru beðnir afsökunar. Kennararáð lítur svo á að málatilbúnaðurinn hafi að ósekju sett blett á starfsheiður viðkomandi starfsmanna og því beri að hreinsa þá afdráttarlaust af umræddum áburði.
Í stað þess að verða við þessum óskum kennararáðsins kallar meirihlutinn eftir lögfræðiáliti um vinnubrögð sín og leggur fram sem svar við beiðni kennararáðsins. Fulltrúar Neslistans í skólanefnd mótmæla þessu og telja beiðni kennararáðsins eðlilega. Fulltrúar meirihlutans væru menn að meiri ef þeir bæðu umrædda starfsmenn formlega afsökunar vegna þessarar málsmeðferðar“.
Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)
Árni Einarsson (sign)
5. Lagt fram yfirlit yfir framvindu verkefnisins Hugur og Heilsa (Fskj. 142-6).
6. Styrkumsókn vegna heimasíðunnar Tákn með tali lögð fram. Skólanefnd vísar erindinu til fjárhags- og launanefndar til umfjöllunar (Fskj. 142-7).
7. Lagt fram bréf frá Örnu Einarsdóttur skólahjúkrunarfræðingi í Mýrarhúsaskóla varðandi skólamáltíðir (Fskj. 142-8).
8. Umsókn frá kennurum í Tónlistarskólanum vegna námsferðar til Amsterdam dagana 27. maí til 2. júní nk. Skólanefnd samþykkir að veita umræddum kennurum styrk að upphæð kr. 5.000,- hverjum (Fskj. -142-9).
9. Ráðning skólastjóra.
Bjarni Torfi Álfþórsson gerði grein fyrir umsóknum og úrvinnslu þeirra. Mannafl ráðningarstofa telur fjóra umsækjendur uppfylla þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu um stöðuna. Þeir eru: Fríða Regína Höskuldsdóttir, Magnús Ingimundarson, Sigfús Grétarsson og Sigríður Hrefna Jónsdóttir, sem hefur dregið umsókn sína til baka. Bjarni lagði eftirfarandi tillögu fram:
Tillaga fyrir skólanefnd:
Skólanefnd leggur til við bæjarstjórn að Sigfús Grétarsson, núverandi skólastjóri Valhúsaskóla, verði ráðinn í starf skólastjóra grunnskóla Seltjarnarness frá og með skólaárinu 2004-2005 að telja. Formlegt upphaf ráðningar miðist við 1. ágúst 2004 en skólanefnd telur nauðsynlegt að skólastjóri hefji störf tengd undirbúningi hið allra fyrsta. Með tillögu þessari fylgir sérstök umsögn skólanefndar vegna ráðningar skólastjóra.
Skólanefnd leggur til við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði falið að ganga til viðræðna við Sigfús Grétarsson um ráðningu í starf skólastjóra grunnskóla Seltjarnarness á grundvelli kjarasamnings Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga frá 9. janúar 2001. Þá verði bæjarstjóra falið að ganga formlega frá gerð skriflegs ráðningasamnings við Sigfús um starfið.
Í samræmi við tillögu, sem samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarness þann 8. október 2003, verða störf skólastjóra í Mýrarhúsaskóla og skólastjóra í Valhúsaskóla lögð niður frá lokum yfirstandandi skólaárs. Miðast formleg niðurlagning starfa við 31. júlí 2004. Um rétt skólastjóra til biðlauna fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, sbr. einkum 14. gr. þeirra.
Þá leggur skólanefnd til við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði falið að tilkynna skólastjóra Mýrarhúsaskóla og skólastjóra Valhúsaskóla um niðurlagningu á störfum þeirra. Eins og atvikum máls er háttað er lagt til að bæjarstjóra verði falið að ganga frá formlegum starfslokum skólastjóra Mýrarhúsaskóla í samráði við lögmann sveitarfélagsins og skal bæjarstjóra heimilt að leysa skólastjóra undan starfsskyldum áður en formleg niðurlagning þess starfs fer fram.
Með tillögu þessari fylgja allar umsóknir ásamt umsögn Mannafls, ráðningaskrifstofu.
Umsögn skólanefndar vegna ráðningar skólastjóra:
Skólanefnd mælir með að Sigfús Grétarsson verði ráðinn skólastjóri grunnskóla Seltjarnarness.
Skólanefnd telur Sigfús uppfylla best allra umsækjenda áskildar kröfur í auglýsingu sem og ákvæði laga nr. 86/1998 um lögverndun, þ.e. 2. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 23. gr. Sigfús hefur bæði kennsluréttindi og kennslureynslu á grunnskólastigi.
Sigfús hefur lengsta reynslu umsækjenda sem skólastjóri, samtals tæplega 20 ár og hefur langa og farsæla stjórnunarreynslu. Hann hefur auk þess víðtæka framhaldsmenntun m.a. frá Universiät Stuttgard, BA – próf frá HÍ í íslensku og þýsku, cand mag frá HÍ 15 ein., stjórnendanám, diploma frá KHÍ, auk þess sem hann hefur stundað nám við HÍ á yfirstandandi skólaári í fræðslustörfum og stjórnun. Hann hefur starfsreynslu við kennslu á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Þá hefur Sigfús reynslu af sveitarstjórnarmálum og hefur m.a. setið sem varamaður í sveitarstjórn og átt sæti í nefndum á vegum sveitarstjórnar.
Sigfús hefur reynslu af gerð fjárhags- og starfsáætlana og mun sú reynsla nýtast honum í starfi skólastjóra.
Skólanefnd hefur yfirfarið umsögn Mannafls sem og umsagnaraðila varðandi Sigfús. Hann fær góðar umsagnir meðmælenda.
Það er mat skólanefndar, m.a. eftir að hafa farið yfir gögn varðandi umsækjendur og átt við þá viðtöl, að fyrri störf Sigfúsar, starfsreynsla, menntun o.fl. séu með þeim hætti að samrýmist best þeim áherslum sem eru í skólastarfi grunnskóla Seltjarnarness og geri hann hæfastan allra umsækjenda.
Að öllu virtu er mat skólanefndar að Sigfús falli best allra umsækjenda að þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu um starfið (Fskj. 142-10).
Bjarni Torfi Álfþórsson (sign)
Gunnar Lúðvíksson (sign)
Lárus B. Lárusson (sign)
Tillaga meirihluta skólanefndar var samþykkt með þremur atkvæðum meirihluta og einu atkvæði minnihluta. Annar fulltrúi minnihlutans sat hjá.
Fulltrúar Neslista í skólanefnd leggja fram eftirfarandi bókun vegna ráðningar skólastjóra á Seltjarnarnesi:
„Meirihlutinn hefur loksins komið í verk að ráða skólastjóra að sameinuðum grunnskóla á Seltjarnarnesi. Með því er vonandi eytt óvissuástandi sem ríkt hefur meðal starfsmanna, foreldra og nemenda skólanna undanfarna sex mánuði.
Valið stóð á milli tveggja hæfra skólastjóra með mikla reynslu sem báðir hafa unnið skólastarfi á Seltjarnarnesi mikið gagn. Fulltrúar Neslista í skólanefnd þakka Fríðu Regínu Höskuldsdóttur skólastjóra Mýrarhúsaskóla, sem nú hverfur frá störfum, hennar góðu störf við skólastjórn Mýrarhúsaskóla og óska henni velfarnaðar.
Fulltrúar Neslista í skólanefnd bjóða skólastjóra við sameiginlegan grunnskóla á Seltjarnarnesi velkominn til starfa og óska honum velfarnaðar í starfi. Hans býður krefjandi verkefni við erfiðar aðstæður sem skapast hafa í kjölfar upphlaups meirihlutans við sameiningu skólanna“ (Fskj. 142-11).
Árni Einarsson (sign)
Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)
Fulltrúar meirihluta í skólanefnd leggja fram eftirfarandi bókun vegna ráðningar skólastjóra á Seltjarnarnesi.
„Um leið og fulltrúar meirihluta í skólanefnd þakka öllum umsækjendum sem sýndu starfi skólastjóra grunnskóla Seltjarnarnes áhuga vill meirihlutinn þakka Fríðu Regínu og Sigfúsi sérstaklega þeirra framlag til skólamála á Seltjarnarnesi síðustu ár. Þá óskar meirihluti skólanefndar Fríðu Regínu velfarnaðar í
framtíðinni“ (Fskj. 142-12).
Bjarni Torfi Álfþórsson (sign)
Gunnar Lúðvíksson (sign)
Lárus B. Lárusson (sign)
Fundargerð ritaði: Margrét Harðardóttir grunnskólafulltrúi
Bjarni Torfi Álfþórsson (sign.)
Gunnar Lúðvíksson (sign.)
Lárus B Lárusson (sign.)
Árni Einarsson (sign.)
Sunneva Hafsteinsdóttir (sign.)