Fara í efni

Fjölskyldunefnd

268. fundur 26. júlí 2001

Mættir: Þórður Búason, Sigrún Benediktsdóttir, Jens Pétur Hjaltested, Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Br. Vilhjálmsdóttir og Snorri Aðalsteinsson.

1.      Trúnaðarmál, fært í trúnaðarmálabók 1. mál.

2.      Trúnaðarmál, fært í trúnaðarmálabók 2. mál.

3.      Trúnaðarmál, fært í trúnaðarmálabók 3. mál.

4.      Umsögn um frumvarp til barnaverndarlaga lögð fram. Félagsmálaráð samþykkir eftirfarandi umsögn.

Barnaverndarnefnd Seltjarnarness telur að fyrirliggjandi frumvarp til barnaverndarlaga sé í flestum atriðum til bóta. Réttarstaða barna er betur tryggð en áður og barnavernd og barnaverndarstafi gert hærra undir höfði. Lagafyrirmæli um málsmeðferð og starfshætti starfsmanna barnaverndarnefnda eru mun skýrari en verið hefur. Hlutverk dómstóla er mjög aukið frá því sem verið hefur með því að úrskurðarvald í málum vegna sviptingar forsjár flyst frá barnaverndarnefndum til þeirra. Þetta ætti einnig að tryggja aukið réttaröryggi aðila máls og vandaðari málsmeðferð. Ákvæði í frumvarpinu um málsmeðferð og hlutverk dómstóla hafa einnig í för með sér auknar kröfur á starfsmenn varðandi vinnubrögð og vinnuframlag.

Í 13. kafla frumvarpsins er fjallað um heimili og stofnanir á ábyrgð ríkisins. Þar er gert ráð fyrir rekstri ríkisins á stofnunum fyrir eldri börn en að sértæk þjónusta fyrir yngri börn sé alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna. Þessi skipting þjónustu eftir því hvort yngri eða eldri börn eiga í hlut er ekki eðlileg og ætti það einnig að vera hlutverk ríkisins að reka þau heimili og úrræði sem upp eru talin í 84. gr. “Heimili og önnur úrræði á ábyrgð barnaverndarnefnda” því að það er flestum sveitarfélögum ofviða að reka slík heimili ef frá er talið stærsta sveitarfélag landsins. Ljóst er að þessi úrræði verða ekki með viðunandi hætti í öðrum sveitarfélögum.

Hlutverk Barnaverndarstofu er margvíslegt skv. 7. grein en eftirfarandi þrír þættir þess samræmast illa: 1.) að veita barnaverndarnefndum ráðgjöf, 2.) að hafa yfirumsjón með vistun barna á heimili og stofnanir sem eru á ábyrgð ríkisins, 3.) að hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda. Þetta hefur oft á tíðum reynst ósamræmanlegt og óheppilegt að sé á hendi sömu stofnunar.

Í 75. gr. um framfærslu og annan kostnað vegna barns í fóstri er gert ráð fyrir því að sveitarfélag sem ráðstafar barni í fóstur í annað sveitarfélag skuli endurgreiða dvalarsveitarfélagi kostnað vegna skólagöngu og skólaaksturs. Þetta ákvæði minnir um margt á sveitfestisákvæði framfærslulaganna frá 1947 sem felld voru úr gildi 1991. Eðlilegra er að hver og einn íbúi sveitarfélags eigi sama rétt til þjónustu óháð því hvaða ástæður liggja að baki búsetu hans. Hins vegar væri hægt að bæta litlum sveitarfélögum upp aukinn kostnað vegna skólagöngu fósturbarna með öðrum hætti svo sem með framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Ljóst er að með frumvarpinu er aukinn kostnaðarauki lagður á sveitarfélögin og tekur barnaverndarnefnd undir sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögunum verði bættur sá kostnaðarauki sem felst í samþykkt frumvarpsins.

5.   Umsókn um leyfi til daggæslu barna í heimahúsi frá Guðnýju Láru Einarsdóttur Miðbraut 30. Samþykkt bráðabirgðaleyfi fyrir allt að 4 börn.

6.   Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneytinu til sveitastjórna dags. 10.7.2001 þar sem athygli er vakin á nokkrum ákvæðum reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum. Umræður urðu um þessi mál og er staðan góð hér á Seltjarnarnesi.

7.   Hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi.

Kynntar tillögur um byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis.

8.   Lagt fram erindi ráðherraskipaðrar nefndar um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Félagsmálaráð tekur heilshugar undir erindið og vekur athygli á að í 5 efstu sætum beggja framboslista til síðustu bæjarstjórnarkosninga voru jafnmargar konur og karlar.

 

Fundi slitið.

Guðrún B. Vilhjálmsdóttir.



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?