463. fundur Fjölskyldunefndar var haldinn þriðjudaginn 22. nóvember 2022, kl. 08:15 í fundarsal bæjarskrifstofu Seltjarnarnesbæjar.
Mættir: Hildigunnur Gunnarsdóttir, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Hákon Jónsson, Sigurþóra Bergsdóttir og Björg Þorsteinsdóttir. Hanna Kristín Hannesdóttir yfirfélagsráðgjafi, Ragna Sigríður Reynisdóttir deildarstjóri félagsþjónustu og barnaverndar, Jóhanna Ósk Ásgerðardóttir umsjónarkona málefna fatlaðs fólks á Seltjarnarnesi og Baldur Pálsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs sátu einnig fundinn.
Fundarstjórn: Hildigunnur Gunnarsdóttir
Fundargerð ritaði: Baldur Pálsson
Dagskrá:
1. 2022080056 - Barnavernd, vistun barns utan heimilis
Fært í trúnaðarmálabók.
2. 2022080057 - Barnavernd, vistun barns utan heimilis
Fært í trúnaðarmálabók.
Hanna Kristín Hannesdóttir og Ragna Sigríður Reynisdóttir viku af fundi kl. 08:35.
3. 2022100122 - Sérstakur tómstundastyrkur
Sviðsstjóri gerði grein fyrir vinnslu málsins.
Bókun meirihluta vegna afgreiðslu málsins:
Meirihluti í fjölskyldunefnd gerir bókun um að hafna tillögu S og óháðra um viðbótartómstundastyrk eins og hún er sett fram. Reglur um fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar frá 2019 heimila nú þegar í 16. gr. að fjölskyldur geti sótt um sérstaka fjárhagsaðstoð til að mynda til að greiða fyrir tómstundir barna. Einnig teljum við að verkferlar sem settir eru fram í tillögunni ekki ganga upp þar sem að félagsþjónustan hefur einungis heimild til að kanna fjárhag fjölskyldna, ekki náms- og starfsráðgjafar í skólum eða nemendaverndarráð. Meirihluti nefndarinnar vill nýta tækifærið og benda á að bréf verður sent út í þeim tilgangi að minna foreldra/forráðamenn á þann möguleika sem getið er um í 16. gr. að sækja um sérstaka fjárhagsaðstoð í tengslum við tómstundir barna.
Hildigunnur Gunnarsdóttir, formaður
Dagbjört S. Oddsdóttir, varaformaður
Hákon R. Jónsson, nefndarfulltrúi
Bókun minnihluta við afgreiðslu málsins:
Samfylkingin og óháðir telja þann farveg sem málið fór í ekki þjóna hagsmunum barna á Seltjarnarnesi. Við hörmum það að ekki sé skoðað að veita sérstaka tómstundastyrki til að koma í veg fyrir ótímabært brottfall barna úr tómstundum. Við teljum að þær reglur sem til eru um fjárhagsaðstoð nái ekki utan um þennan vanda þar sem reglur um lágmarkstekjur eru allt of lágar og óljóst hverjir eigi rétt á að fá slíka aðstoð.
Sigurþóra Bergsdóttir
Björg Þorsteinsdóttir
Jóhanna Ósk Ásgerðardóttir kom til fundar kl. 09:05.
4. 2022110154 - Endurskoðun stefnu Seltjarnarnesbæjar í málefnum fatlaðs fólks
Fjölskyldunefnd samþykkti að hefja endurskoðun stefnu sveitarfélagsins í málefnum fatlaðs fólks og fól Jóhönnu Ósk Ásgerðardóttur eftirfylgni við málið.
Jóhanna Ósk Ásgerðardóttir vék af fundi kl. 09:10.
5. 2022110155 - Félagslegar leiguíbúðir á vegum Seltjarnarnesbæjar
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málaflokknum og stöðu hans.
Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum.
Fundi var slitið kl. 09:35.