Fara í efni

Virðing, ábyrgð og vellíðan

Á nýliðnu ári var unnið að endurskoðun skólastefnu Seltjarnarness og var endurskoðuð stefna samþykkt í bæjarstjórn í nóvember.

Á nýliðnu ári var unnið að endurskoðun skólastefnu Seltjarnarness og var endurskoðuð stefna samþykkt í bæjarstjórn í nóvember. Í skólastefnunni er lögð áhersla á að reka góða skóla þar sem boðið er upp á metnaðarfullt og framsækið skólastarf, sem byggir á góðu starfsumhverfi. Áhersla er lögð á að mæta þörfum nemenda og ýta undir hæfileika þeirra. Þá er hvatt til góðra samskipta og samstarfs starfsfólks, nemenda, foreldra og annarra samstarfsaðila, sem er forsenda þess að vel takist til við að byggja upp gott og mannvænt samfélag.

Skólanefnd Seltjarnarnesbæjar samþykkti á fundi 1. september 2010 að skólastefna bæjarins frá árinu 2006 skyldi endurskoðuð. Skipaður var vinnuhópur til að sjá um verkið og undirbúa Skólaþing, vettvang þar sem íbúar bæjarins legðu til hugmyndir og áherslur í skólastefnu. Í hópnum voru fulltrúar skólanefndar og stofnana á Fræðslusviði.

Fjölmargir Seltirningar lögðu sitt af mörkum við endurskoðun skólastefnunnar, þar sem á annað hundrað manns sóttu Skólaþing, sem haldið var í Valhúsaskóla 2. mars 2011 og tóku virkan þátt í vinnuhópum, sem skiluðu miklum efniviði. Í kjölfar Skólaþings var skipuð ritnefnd og rýnihópur úr röðum undirbúningshóps, sem sendi drög að endurskoðaðri skólastefnu til umsagnar þátttakenda og hagsmunaaðila í skólasamfélaginu. Endurskoðuð skólastefna byggir á fyrri skólastefnu bæjarins auk gagna sem urðu til á Skólaþingi.

Nú hefst vinnan við kynningu og innleiðingu stefnunnar í stofnunum á fræðslusviði, jafnframt því sem athygli bæjarbúa á henni er hér með vakin. Skólastefnu Seltjarnarness má finna á eftirfarandi slóð:

http://www.seltjarnarnes.is/static/files/frettir/fraedslusvid/skolastefna-seltjarnarness2011.pdf

Skólanefnd Seltjarnarness þakkar öllum þeim sem komu að verkinu fyrir þátttökuna og þeirra framlag.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?