Miðvikudaginn 1. júlí sl. fór fram verðalaunaafhending í samkeppni um hönnun hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.
Miðvikudaginn 1. júlí
Miðvikudaginn 1. júlí sl. fór fram verðalaunaafhending í samkeppni um hönnun hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.
Í apríl sl. var auglýst var eftir hönnunarteymum til að taka þátt í lokaðri samkeppni, forvali, um hönnun á hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi. Alls óskuðu 25 teymi eftir þátttöku og voru 5 teymi valin til að taka þátt í lokaðri samkeppni um hönnun byggingarinnar. Skilafrestur tillagna var 10. júní og veitti Jónmundur Guðmarsson fyrrverandi bæjarstjóri Seltjarnarness og formaður dómnefndarinnar Arkís ehf, Hnit hf. og Landark verðlaun fyrir bestu tillöguna á Bókasafni Seltjarnarness miðvikudaginn 1. júlí.
Rökstuðningur dómnefndar fyrir bestu tillögunni var að hönnuðir höfðu að leiðarljósi að endurspegla heimilislega en jafnframt örvandi umgjörð utan um hjúkrunarheimili sem fellur vel að nánasta umhverfi. Þetta markmið tekst með ágætum. Öll „heimilin“ eru á efri hæð byggingarinnar. Með markvissri hliðrun rýma hefur höfundum tekist að skapa mjög áhugaverða og líflega umgjörð um dvalarstaði íbúanna. Sameiginleg rými heimilanna og flestar íbúðanna eru ýmist í mikilli nánd við náttúru Valhúsahæðar eða skemmtilega útfærða garða sem teygja sig nokkuð langt inn í bygginguna.
Íbúðir eru rúmgóðar og vel leystar með tilliti til mismunandi uppröðunar og tenginga herbergja.æ Rýmum dagsvistar og tómstundastarfs er öllum vel fyrirkomið á neðri hæð hússins þar sem þau allt að því „fljóta“ saman við aðkomutorg, ljósgarð og stiga upp á efri hæð hússins. Tillagan hefur yfir sér látlaust og heimilislegt yfirbragð með áhugaverðum lausnum á „heimilum“ og görðum sem og vel heppnaðri aðlögun að nánast umhverfi. Það er samróma álit dómnefndar að velja þessa tillögu til útfærslu.
Tillögur teymanna 5 verða til sýnis í Eiðisskeri á Bókasafni Seltjarnarness til 1. ágúst nk.
Nánari upplýsingar veitir Ólafur Melsteð framkvæmdastjóri tækni- og umhverfissviðs í síma 5959 100
Ljósmyndin er af dómnefnd og vinningshöfum. Ljósmyndari Ellen Calmon.