Afkoma og rekstur bæjarsjóðs árið 2007 er í góðu samræmi við vaxandi fjárhagslegan styrk Seltjarnarnessbæjar á síðustu árum. Með markvissri fjármálastjórn hefur reynst unnt að greiða niður langtímaskuldir, lækka álögur á íbúa en um leið auka þjónustu við íbúa og ráðast í framkvæmdir fyrir sjálfsaflafé.
Jafnframt er rétt að ítreka að skattgreiðendum á Seltjarnarnesi er hlíft við á þriðja hundrað milljónum króna árlega með lægst álögum á höfuðborgarsvæðinu og þannig sparast hverju heimili hundruð þúsunda króna í opinberum gjöldum á við það sem gerist annarsstaðar. Slíkt kemur öllum Seltirningum til góða og á stóran þátt í að gera Seltjarnarnes að eftirsóknarverðu og fjölskylduvænu bæjarfélagi.
Heildartekjur bæjarsjóðs og fyrirtækja árið 2007 námu rúmum 2.400 mkr. og vaxa skatttekjur um 22%% milli ára þrátt fyrir lækkun útsvars og fasteignagjalda.
Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs fyrir árið 2007 nam þannig rúmum 400 milljónum króna sem er um 50% betri afkoma en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Svipaða sögu er að segja um samstæðureikning bæjarins þar sem rekstrarniðurstaða er rúmlega 70% hærri en gert var ráð fyrir og nám um 300 milljónum króna á síðasta ári. Tekjur ársins jukust þannig verulega umfram forsendur fjárhagsáætlunar eða um 8% skýrist annars vegar af aukningu hefðbundinna tekna þrátt fyrir lækkun útsvars og fasteignaskatta og meiri fjármagnstekjum af innistæðum sveitarfélagsins en ráð var fyrir gert.
Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri bæjarsjóðs tæpum 525 milljónum króna sem er verulaga umfram fjárhagsáætlun ársins 2007. Veltufé frá rekstri nam á síðasta ári um 22% af tekjum bæjarsjóðs og undirstrikar fjárhagslegan styrk Seltjarnarnesbæjar á venjubundnu rekstrarári.
Hlutfall veltufjár bæjarins var 6,3 í árslok 2007 og er því mjög hátt eða ríflega sex sinnum hærra en æskilegt lágmarkið 1,0. Engin lán voru tekin til framkvæmda á árinu en hartnær áratugur er frá því Seltjarnarnes sló síðast lán fyrir framkvæmdum. Bæjarsjóður nýtir vaxtatekjur á innlánsreikningum auk rekstrarhagnaðar bæjarsjóðs til framkvæmda.
Handbært fé í árslok nam um 1.330 milljónum króna og hækkar um 35% á milli ára.
Langtímaskuldir bæjarins og samstæðu hafa farið hratt lækkandi síðustu ár og eru nú óverulegir í ljósi fjárhagslegs styrkleika Seltjarnarnesbæjar.
Sjá Ársreikning bæjarsjóðs 2007 1.47 mb