Fara í efni

Útsvar lækkar, tómstundastyrkir hækka.

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013 og 3ja ára áætlun var samþykkt samhljóða í gær. 

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013 og 3ja ára áætlun var samþykkt samhljóða í gær.

Skattar lækka á íbúa Seltjarnarnes, samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2013. Útsvarsprósentan lækkar úr 14,18 í 13,66. Rekstur bæjarsjóðs skilar afgangi og hægt er að auka þjónustuna við bæjarbúa. 

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri segir fjárhagáætlun unna í samvinnu meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn. Meðal tíðinda úr áætluninni er að tómstundastyrkir verða hækkaðir um 20% fara í 30 þúsund krónur en þeir voru 25 þúsund krónur. Seltjarnarnes er með hæstu styrki af þessu tagi á landinu.

,,Þessir styrkir koma barnafjölskyldum vel og það er samstaða um að batnandi hagur bæjarsjóðs skuli komi fjölskyldufólki til góða,” segir Ásgerður og kveðst ánægð með að Nesið skuli í farabroddi á landinu hvað varðar tómstundastyrkina.

Frá 1. janúar á næsta ári verða teknar upp sérstakar húsaleigubætur. Þær bætur eru ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með húsaleigu sökum lágra tekna, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra aðstæðna.

Skattar eru almennt lægstir á Seltjarnarnesi, fasteignaskattur 0,21% sem er lægsta hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu, vatnsskattur 0,11% og fráveitugjald 0,12%.

En hvernig stendur bæjarsjóður?

,,Jú, fjárhagsleg staða bæjarsjóðs er sterk,” segir Ásgerður. ,,Bærinn hefur greitt niður skuldir og engin ný lán hafa verið tekin á árinu.” Rekstrarafgangur verður 18 milljónir króna, samkvæmt áætluninni. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 70% með því lægst á landinu og fer lækkandi.

Ásgerður þakkar góða rekstarafkomu starfsmönnum bæjarfélagsins sem hafa lagt sig fram um skilvirkan rekstur. Rúmur helmingur útgjalda aðalsjóðs bæjarins fer til fræðslumála. Þjónustan sem skólarnir veita er mjög góð, nýlega úttekt frá menntamálaráðuneytinu styður það og samanburður á samræmdum prófum milli skóla landsins.

Ásgerður segir að hófleg íbúafjölgun næstu ár þarf ekki að kalla á umfangsmiklar fjárfestingar.

Eins og bæjarbúar hafa eflaust tekið eftir hafa ýmsar framkvæmdir verið unnar á þessu ári. Þá er hafin vinna við að endurnýja þakið Eiðistorgi og á næsta ári er ráðgert að fara í framkvæmdir fyrir um 250 mkr. og   byggingu hjúkrunarheimilis.

Í sumar störfuðu um 350 unglingar við ýmis störf hjá bænum en öllum sem leituðu til bæjarins um sumarstarf fékk starf, er það liður í sumarátaki bæjarins að unga fólkið okkar hafi starf en gangi ekki um atvinnulaust.

,,Ég hef orðið vör við almenna ánægju með þetta framtak bæjarins. Auðvitað kostar þetta fjármuni en þetta er alltaf spurning um forgangsröðun miðað við aðstæður hverju sinni hvernig skattfé íbúanna er varið,” segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri.



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?