Fara í efni

Útsvar lækkað á Seltjarnarnesi

Álagningarhlutfall útsvars hefur verið lækkað um 2% á Seltjarnarnesi og verður 12,10% árið 2008. Fasteignaeigendur og skattgreiðendur á Seltjarnarnesi munu því njóta lægstu álagningarstuðla útsvars, fasteignaskatts, vatnsskatts og holræsagjalds á höfuðborgarsvæðinu.

Álagningarhlutfall útsvars hefur verið lækkað um 2% á Seltjarnarnesi og verður 12,10% árið 2008. Fasteignaeigendur og skattgreiðendur á Seltjarnarnesi munu því njóta lægstu álagningarstuðla útsvars, fasteignaskatts, vatnsskatts og holræsagjalds á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem útsvar er lækkað á Seltjarnarnesi. Einungis örfá og fámenn sveitarfélög á landsbyggðinni leggja lægra útsvar á íbúa sína. Álagningarhlutföll fasteignagjalda á Seltjarnarnesi eru einnig hin lægstu á höfuðborgarsvæðinu og þjónustugjöldum er stillt mjög í hóf. Þær gjaldskrár þjónustugjalda sem nú hækka ná til að mynda ekki hækkun verðlags á síðasta ári.

Í fjárhagsáætlun Seltjarnarnesskaupstaðar, sem samþykkt var samhljóða, er gert ráð fyrir að útgjöld til málaflokka verði aukin verulega á þessu ári, sérstaklega til íþrótta- og æskulýðsmála og fræðslumála. Styrkjum til íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og ungmenna á Seltjarnarnesi 6 til 18 ára verður fram haldið og til viðbótar verður nú boðið upp á sérstakar heimgreiðslur til foreldra barna á aldrinum níu til tuttugu og fjögurra mánaða.

Þrátt fyrir aukin útgjöld er gert ráð fyrir að rekstrarhlutfall aðalsjóðs verði mjög gott eða um 85% af tekjum. Útgjaldaaukningin ræðst fyrst og fremst af aukinni þjónustu við íbúa og áætluðum launabreytingum. Niðurgreiðslu langtímalána bæjarfélagsins verður haldið áfram og vaxtatekjur af handbæru fé bæjarins, sem nema um 1100 mkr, munu áfram skapa traustan grundvöll fyrir lífsgæðaverkefni fyrir bæjarbúa á komandi árum.

Gert er ráð fyrir að langtímaskuldir bæjarins, sem telja má óverulegar í samanburði við önnur sveitarfélög og fjárhagslegra stöðu bæjarins, haldi áfram að lækka samtímis því sem veltufé frá rekstri eykst verulega og með því greiðslugeta og bolmagn til framkvæmda. Fjárfestingageta vex verulega á milli ára en þetta ár verður ríflega 450 mkr. varið til nýframkvæmda, fjárfestinga og niðurgreiðslu langtímaskulda.

Meðal helstu framkvæmda í Seltjarnarneskaupstað á árinu verður bygging stúku og vallarhúss við gervigrasvöll. Keyptur verður nýr tækjabúnaður fyrir sundlaug auk þess sem þak hennar verður endurnýjað. Þá verður lokið við búningsaðstöðu fyrir fatlaða og sameiginleg móttaka með nýrri glæsilegri líkamsræktarstöð tekin í gagnið.

Ráðist verður í annan áfanga gatnagerðarátaks á árinu og er áætlaður kostnaður um 90 milljónir. Auk þess verður gengið frá landmótun við Suðurströnd. Hafist verður einnig handa við gagngera endurnýjun skólalóðar Mýrarhúsaskóla.

Byrjað verður á byggingu fjölnota lækningaminjasafns og menningarseturs í samvinnu við menntamálaráðuneyti, Læknafélag Íslands og Reykjavíkur og Þjóðminjasafn auk ýmissa smærri verkefna.

Fyrirhugað er einnig að koma upp upplýsingabrunnum á nokkrum stöðum í bænum en það verða snertiskjáir með upplýsingum um sögu, menningarminjar, náttúrufar og staðháttarupplýsingum um Seltjarnarnes.




Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?