Fara í efni

UPPTAKTURINN 2022 - Tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna

Enn á ný er blásið til leik í Upptaktinum þar sem að öll börn á aldrinum 10-15 ára gefst kostur á að setja saman og senda inn tónsmíð óháð tónlistarstíl fyrir 21. febrúar nk. Sjá nánar: 
Enn á ný er blásið til leiks í Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna sem er samstarfsverkefni Barnamenningarhátíðar, Hörpu, Listaháskóla Íslands, RÚV og Tónlistarborgarinnar Reykjavík. Upptakturinn snýst um að öll börn á aldrinum 10-15 ára á höfuðborgarsvæðinu gefst kostur á að setja saman og senda inn tónsmíð eða drög að tónsmíð óháð tónlistarstíl fyrir 21. febrúar nk.

Þetta er í fimmta sinn sem Seltjarnarnesbær styrkir þátttöku ungmenna á Seltjarnarnesi og hefur börnum héðan vegnað afar vel í keppninni og m.a. komist í lokaúrtakið í tvígang.

Ítarlegar upplýsingar um Upptaktinn, fyrirkomulagið, kynningarmyndbönd og heimildarmynd er að finna á:
KrakkaRúv og UngRúv

Þegar að umsóknarfresti lýkur þann 21. febrúar nk. mun dómnefnd skipuð fagaðilum og atvinnutónlistarmönnum taka til starfa og velja 12-13 verk úr innsendum hugmyndum. Þau verk verða svo fullunnin af ungmennunum sjálfum í vinnustofu í Hörpu með aðstoð tónskálda og fagfólks í tónlist og fer sú vinnustofa fram 7.-19. mars 2022.
Þriðjudaginn 5. apríl verða tónverkin flutt af fagfólki á metnaðarfullri og glæsilegri tónleikadagskrá í Hörpu og eru hluti af Barnamenningarhátíðinni. Öll verkin á tónleikunum hljóta tónsköpunarverðlaunin Upptaktinn 2022.

Við eigum mikið af hæfileikaríkum krökkum hér á Nesinu og því eru foreldrar eindregið hvattir til að vekja athygli sinna barna á Upptaktinum og hvetja þau til þátttöku. Nemendur geta leitað ráða hjá kennurum í tónlistarskólanum og starfsfólkinu í Frístundinni og Selinu sem hafa allar upplýsingar og eru reiðubúin að aðstoða og hvetja þátttakendur.

Upptakturinn 2022
Upptakturinn 2022

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?