Undanfarna daga hefur markvisst verið unnið að því að laga svæðið í kringum útilistaverkið Bollastein eftir listamanninn Ólöfu Nordal og fjöruna við Kisuklappir. Ráðist var í verkefnið í framhaldi af mikilvægum ábendingum Ólafar um að umhverfið í kringum Kisuklappir væri stórkostlega breytt og að listaverkið ekki lengur eins og það ætti að sér að vera. Þangað hafði borist gríðarlegt magn af umfram grjóti og möl sem breytti til mikilla muna aðstæðum og ásýnd þessara dásamlegu náttúruminja og listaverks. Ástæðan er sú að umtalsvert tjón varð á grjótvörninni vegnaágangs sjávar, mikils háflæðis og ítrekaðra ofsaveðra síðastliðna vetur sem hafa grafið undan og skolað upp á land miklum efniviði úr uppfyllingunni sem gerð var vegna tilraunaborholu hitaveitunnar. Svo mikið gekk á að uppfyllingin hreinlega fór af stað og tók úr henni grjót og möl sem og brustu sjóvarnargarðar á nokkrum stöðum við Norðurströndina.
Í byrjun árs 2020 fór Vegagerðin í nauðsynlega vinnu við endurbæta sjóvarnargarða við Norðurströndina austan megin við Kisuklappir,þar sem að smá skörð voru komin í varnargarðinn. Í framhaldi var fenginn verktaki til að styrkja grjótgarð uppfyllingarinnar og svæðið vestan megin við Kisuklappir. Við nánari skoðun hefur sú styrking sem gerð var í vetur gengið allt of langt og ekki framkvæmd með tilliti til náttúruminjanna og því að halda óbreyttri ásýnd fjörunnar.
Nýverið og eftir samtöl við Ólöfu var því ákveðið að setja strax í gang vinnu við að endurheimta fjöruna, svæðið í kringum Bollastein og nánasta umhverfi eins og kostur er. Þetta verður gert í nokkrum skrefum í nánu samráði við listamanninn og er potturinn lokaður á meðan enda umhyggja hennar fyrir náttúruminjunum, svæðinu og listaverkinu þakkarverð.
Fyrsta skrefið í endurheimtarferlinu var að starfsmenn Seltjarnarnesbæjar hafa nú undanfarna daga unnið að því að hreinsa í burtu mikið af umfram grjóti og möl í kringum Bollastein þannig að nú er hann sýnilegur í þeirri hæð sem hann á að vera sem og er grófhreinsa mikið af efni niður að Kisuklöppum þannig að sjávargrjótið er aftur komið í ljós. Eftir helgina verður farið í að fínhreinsa betur þetta sama svæði og mun hópur ungmenna í vinnuskólanum handtýna í burtu eins mikið af smærra grjót sem sannarlega á ekki uppruna sinn í fjörunni við Kisuklappir. Að þessu loknu stendur til að hleypa vatni aftur í Bollastein en einnig er búið að hreinsa hann allan að innan.
Í haust verður svo haldið áfram með lagfæringu og endurheimt fjörunnar og svæðisins en þá er markmiðið að fjarlægja umfram jarðveginn sem settur var í kverkina milli uppfyllingarinnar og Kisuklappa og tryggja styrkingu grjótgarðsins þar í samræmi útlit og ásýnd frá því sem áður var. Þá verður einnig klárað að hreinsa og lagfæra svæðið í kringum Kisuklappir og Bollastein þannig að sjávargrjótið og umhverfið fái á njóta sín eins og vera ber öllum til yndisauka. Samhliða þessu verður svo farið í að vinna hugmyndir að því hvernig ásýnd uppfyllingarinnar á að verða til framtíðar og koma með lausnir sem binda betur niður jarðveginn auk þess að gera svæðið að fallegum útsýnisstað.
Á meðfylgjandi myndum má sjá framvindu verksins á allra síðustu dögum sem gefur okkur góðar vonir um að vel takist til vil endurheimt þessarrar náttúruperlu á Seltjarnarnesi sem hefur svo mikið aðdráttarafl.