Verðlaunahafar ásamt Þór Sigurgeirssyni, formanni umhverfisnefndar (c) 2009 Baldur Gunnlaugsson
Þór Sigurgeirsson formaður umhverfisnefndar Seltjarnarness afhenti fyrir hönd nefndarinnar umhverfisviðurkenningar ársins við hátíðlega athöfn í Bakkagarði fimmtudaginn 13. ágúst.
Viðurkenningu hlutu eftirtaldir:
Endurbætur ársins:
Nes við Seltjörn – Umhverfisnefnd telur að endurbætur á Nesstofu hafi heppnast vonum framar. Þetta gamla og sögufræga hús hefur loks öðlast þann sess og fengið þá andlitslyftingu sem því ber svo mikill sómi er að. Húsið er nú falleg umgjörð um glæsilegt lækningaminjasafn og perla safnasvæðisins sem er alltaf að taka á sig verklegri mynd. Nes við Seltjörn er og verður sannkölluð bæjarprýði.
Fyrirtækjalóð ársins:
Sundlaug Seltjarnarness og Suðurstrandarvöllur – Umhverfisnefnd telur að mjög vel hafi tekist til við hönnun og frágang þessara mannvirkja. Einkennandi eru snyrtilegar hellulagnir og gott aðgengi gangandi sem hreyfihamlaða vegfarenda að þessum mannvirkjum. Endurbætur á aðgengi Sundlaugar og tenging við glæsilega byggingu heilsuræktarinnar eru til fyrirmyndar.
Suðurstandarvöllur er án efa með glæsilegri íþróttasvæðum landsins og allur frágangur umhverfis er fyrsta flokks.
Gata ársins:
Selbraut – Verulega falleg gata sem ber íbúum sínum fagurt vitni. Vel heppnuð blanda glæsilegra einbýlishúsa og raðhúsa. Gangstéttir og ljósataurar voru endurnýjuð nýlega og er gaman að sjá hversu vel íbúar hlúa að görðum sínum. Í heildina séð falleg götumynd.
Viðurkenning fyrir fallegan garð:
Sólbraut 8 - Nútímaleg hönnun einkennir þennan fallega garð sem byggir að mestu á glæsilegum harðviðarpalli sem nær yfir megnið af framgarðinum. Í bland eru fallegar plöntur og tré sem veita notendum ánægju að ógleymdu sterku innleggi í götumyndna
Viðurkenning fyrir fallegan garð:
Vallarbraut 18 - Virkilega fallegur garður sem gefur heilmikið til götumyndarinnar og er með fjölbreyttum gróðri og glæsilegum skjólgóðum palli í bakgarði. Mjög notendavænn og góður garður við eldra hús í grónu hverfi.
Viðurkenning fyrir fallegan garð:
Miðbraut 11 – Einfaldur og smekklega hannaður garður við eldra hús. Framgarðurinn gefur heilmikið af sér til götumyndarinnar og bakgarðurinn er mjög notadrjúgur og skjólsæll.
Garður ársins:
Nesbali 52 – Glæsilegur garður þar sem sameinast einfaldleiki, einstaklega smekklegt úrval plantna, ásamt ægifögru útsýni til suðvesturs yfir Bakkatjörn. Framgarður er hellulagðri aðkomu og bakgarðurinn er einstaklega smekklega hannaður og mjög vel við haldið. Þessi garður ber eigendum sínum fagurt vitni og endurspeglar natni þeirra við umhirðu hans.