Kennarar í grunnskólunum lögðu áherslu á umferðarfræðslu þessa viku og unnu að margs konar verkefnum með nemendum.
Skólanefnd og Skipulags- mannvirkja- og umferðarnefnd á Seltjarnarnesi stóðu fyrir umferðardögum 14.-26. maí sl. Dagskráin var fjölbreytt og hófst með árlegum reiðhjóladegi 14. maí á lóð Mýrarhúsaskóla undir styrkri handleiðslu Slysavarnardeildar kvenna á Seltjarnarnesi.
Kennarar í grunnskólunum lögðu áherslu á umferðarfræðslu þessa viku og unnu að margs konar verkefnum með nemendum.
Umferðarskilti af ungum vegfarendum voru hengd upp víðsvegar um bæinn og nýtt skilti sem mælir hraða ökutækja var staðsett á mismunandi stöðum í bænum.
Slysavarnarfélagið Landsbjörg skipulagði umferðarfræðslu fyrir nemendur í 6.-10. bekk Umferðarfulltrúinn brýndi fyrir börnunum að nota allan þann öryggisbúnað sem til er s.s. hjálma og öryggisbelti. Hann lagði ennfremur áherslu á að ökumenn ættu að fylgja reglum um hámarkshraða og ræddi við eldri nemendur um að áfengi og akstur fara aldrei saman.
Slysavarnarfélagið Landsbjörg kynnti geimálfinn frá plánetunni Varslys á Eiðistorgi. Geimálfurinn er kynningartákn fyrir efni í lífsleikni sem Landsbjörg hefur nýverið gefið út en það fjallar um öryggismál almennt þar með talið umferðaröryggi. Slysavarnardeild kvenna á Seltjarnarnesi styrkti verkefnið með leigu á hljóðkerfi. Hægt er að nálgast efni Landsbjargar um geimálfinn á slóðinni http://www.tmt.is/geimalfurinn2.htm
Vátryggingarfélag Íslands – VÍS bauð nemendum í 9. og 10. bekk í Valhúsaskóla að fara í ökuferð á svokölluðum sleða og lenda í árekstri á 15 km hraða. Tilgangurinn er leggja áherslu á mikilvægi á notkun öryggisbelta.
Umferðarskólinn ungir vegfarendur var með fræðslu í Gróttusalnum fyrir 5 og 6 ára börnin í leikskólanum. Um 100 börn tóku virkan þátt í fræðslunni og sýndi sig að áhuginn fyrir efninu var mikill. Börnin á Seltjarnarnesi eru fyrst til þátttöku í Umferðaskólanum á þessu vori.
Lögð var áhersla á að hafa dagskrána sem fjölbreyttasta og sýnilegasta með því að flytja hluta hennar út fyrir skólahúsnæði. Það er mál manna að dagskráin hafi tekist vel, en margir nemendur Valhúsaskóla eiga sjálfsagt seint eftir að gleyma ökuferðinni á sleðanum, enda sérstaklega mikilvægt fyrir þá nú þegar fer að líða að því að þeir taki bílpróf.