Trönurnar úti við Snoppu eru mikil menningarverðmæti og minna á þann tíma er Vestursvæðin voru undirlögð í trönum með skreið og hausum enda aðstaða hér á Nesinu til þeirrar verkunar hinar bestu. Þær gáfu sig og hurfu smám saman en þær sem eftir standa voru reistar fyrir nokkrum árum meðal annars fyrir tilstilli Jóns Snæbjörnssonar og Seltjarnarnesbæjar til minningar um þessa verkun. Nú í haust fauk hluti af trönunum um koll í stórviðrinu sem gekk hér yfir Seltjarnarnesið og landið allt. Ástandið var þannig að það sem eftir stóð gat hæglega skemmst.
Trönuvinir, félagsskapur sem Jón og fleiri galvaskir Seltirningar skipa, láta sér afar annt um trönurnar og hafa haldið þeim við eins og hægt er. Þeir félagar hittust á laugardagsmorgun í köldu en afar fallegu veðri og tóku niður það sem eftir stóð af trönunum. Þeir gengu vandlega frá þeim fyrir veturinn og ætla sér svo að reisa trönunarnar aftur í vor á sama stað og mögulega hengja á þær fisk til minningar um fyrri tíma.