Fara í efni

Traust fjárhagsstaða og bjartir tímar á Nesinu

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2021 sem undirritaður var af bæjarstjóra og vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn á fundi bæjarráðs í dag fimmtudaginn 7. apríl, sýnir verulegan bata á rekstri og sterka fjárhagsstöðu bæjarins.

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2021, sem undirritaður var af bæjarstjóra og vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn á fundi bæjarráðs í dag fimmtudaginn 7. apríl, sýnir verulegan bata á rekstri og sterka fjárhagsstöðu bæjarins.


Grunnrekstur styrktist um 135 milljónir milli ára

Rekstur A hluta bæjarins fyrir afskriftir og fjármagnsliði skilaði 82 mkr. afgangi samanborið við 53 m.kr. halla árið 2020. Er þetta bati upp á 135 mkr. Þá er grunnreksturinn 129 mkr. betri en áætlanir fyrir 2021 gerðu ráð fyrir.

 

Rekstrarniðurstaða af A sjóði fyrir breytingu á lífeyrisskuldbindingu er halli upp á 128 mkr. en áætlun gerði ráð fyrir 194 mkr. hallarekstri vegna yfirstandandi Covid faraldurs sem nú sér loks fyrir endann á. Betri rekstrarniðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir skýrist af hærri tekjum, einkum útsvarstekjum sem voru 200 mkr. yfir áætlun. Skatttekjur A hluta námu 3.615 mkr. og hækkuðu um 6,2% frá síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu um 2.823 mkr. og hækkuðu um 2,5%.  Annar rekstrarkostnaður var töluvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir, nam 1.799 mkr. og hækkaði um tæp 8,6%.  Skýrist kostnaður umfram áætlun að miklu leyti af aðgerðum vegna Covid faraldursins og má þar nefna m.a.  lokun sundlaugar, aukin þrif og launakostnað.

 

Veruleg hækkun lífeyrisskuldbindingar

Rekstrarhalli A og B sjóðs nam tæpum 530 mkr. á síðasta ári en gert var ráð fyrir 136 mkr. króna halla samkvæmt fjárhagsáætlun. Afkoma af grunnrekstri er góð og fer batnandi, en 455 mkr. einskiptis gjaldfærsla á lífeyrisskuldbindingu  í ársreikningi samkvæmt reikningsskilareglum gefur ekki rétt mynd af niðurstöðu. Gjaldfærslan hefur ekki áhrif á sjóðstreymi og þ.a.l. ekki áhrif á útgjöld bæjarins tilgrunnþjónustu. Að ekki teknu tilliti til hækkunar á lífeyrisskuldbindingu nam halli A og B sjóðs rúmlega 73 mkr. en spáð var halla upp á  106 mkr. þar sem tekið var tillit til kostnaðar vegna Covid.

Gjaldfærð lífeyrisskuldbinding ársins nemur eins og áður sagði 455 mkr. vegna verulegra breytinga sem gerðar eru á forsendum útreiknings skuldbindingarinnar að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga. Breytingin felst m.a í hækkun á lífslíkum og launahækkunum og þar með áunnum réttindum sjóðsfélaga sem fá greiðslur úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ljóst er að endurskoða þarf hvernig þessi breyting er sett inn í ársreikning sveitarfélaga.

 

Litlar skuldir skapa svigrúm

Fjárhagsstaða bæjarins er sterk. Langtímaskuldir A sjóðs nema 2.933 mkr. og jukust um 400 mkr. á árinu og langtímaskuldir samstæðu nema um 3.439 mkr. Á móti langtímaskuldum A sjóðs kemur núvirt krafa á ríkið vegna hjúkrunarheimilisins Seltjarnar að upphæð 1.056 mkr. sem lækkar skuldaviðmið.

 

Skuldaviðmið

Skuldaviðmið Seltjarnarnesbæjar var 80% í árslok en var 65% árið 2020. Lögbundið hámark er 150%. Seltjarnarnesbær á kröfu á Reykjavíkurborg að upphæð liðlega 600 mkr. vegna fimleikahúss sem getið er um í skýringum með ársreikningi. Kröfur á ríki og Reykjavíkurborg eru því um helmingur af langtímaskuldum bæjarins. Gert er ráð fyrir frekari lántöku vegna byggingar nýs leikskóla á þessu ári  en það er í raun síðasta stóra innviðafjárfestingin á næstu árum. Veltufé samstæðu nam 353 mkr. en veltufé segir til um getu bæjarins til að greiða af lánum og ráðast í fjárfestingar.

 

Uppbygging og viðspyrna framundan

Framundan eru bjartari tímar. Hafist var handa við byggingu búsetukjarna fyrir fatlaða einstaklinga  á árinu auk annarra framkvæmda. Atvinnuleysi stóð í 9,6% í upphafi síðasta árs, var liðlega 6% um miðbik ársins en var komið í 3,4% á Seltjarnarnesi í árslok. Samfara lágu atvinnuleysi, fólksfjölgun og hagvexti munu útsvarstekjur styrkjast verulega á komandi misserum. Gert er ráð fyrir að íbúum muni fjölga um 50 með tilkomu fyrsta áfanga Gróttubyggðar en þeir eru í dag 4.720.


Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?