Sígildar, íslenskar dægurflugur munu hljóma á Bókasafni Seltjarnarness þegar Gamlir Fóstbræður ásamt tenórnum Þorgeiri Andréssyni halda þar tónleika næstkomandi fimmtudaginn 13. mars kl. 17:00, en tónleikarnir eru liður í Tónstöfum, samstarfi Bókasafnsins og Tónlistarskóla Seltjarnarness.
Gamla Fóstbræður skipa eldri félagar Karlakórsins Fóstbræðra sem þeir félagar nefna gjarnan lávarða- eða öldungadeild söngsveitarinnar, en félagsskapurinn rekur aldur sinn aftur til ársins 1959.
Gamlir Fóstbræður hafa allt frá stofnun staðið þétt að baki og við hlið aðalkórsins og komið fram á öllum stærri hátíðarstundum Fóstbræðra. Söngsveitin æfir að jafnaði hálfsmánaðarlega og er stjórnandi beggja
Fóstbræðrakóranna Árni Harðarson. Gamlir Fóstbræður hafa á undanförnum árum komið víða fram og halda árlega í tónleikaferð út á landsbyggðina eða út fyrir landsteinanna, en í vor er ferðinni heitið til Færeyja. Starfsemi kórsins er öflug og virkir meðlimir fast að fjörutíu.
Á tónleikunum í Bókasafni Seltjarnarness er það Gylfi Gunnarsson skólastjóri Tónlistarskóla Seltjarnarness sem stjórnar og píanóleik annast Dagný Björgvinsdóttir.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Bókasafn Seltjarnarness er á Eiðistorgi 11, fyrir ofan Hagkaup.