Fara í efni

Tónlistarskóla Seltjarnarness slitið

Tónlistarskóla Seltjarnarness var slitið mánudaginn 27. maí í Seltjarnarneskirkju fyrir fullu húsi. 

Tónlistarskólinn skólaslit 2013Tónlistarskóla Seltjarnarness var slitið mánudaginn 27. maí í Seltjarnarneskirkju fyrir fullu húsi. Lúðrasveit eldri nemenda hóf dagskrána af miklum krafti en síðan gerði skólastjórinn Gylfi Gunnarsson grein fyrir starfi vetrarins. Í máli hans kom fram að 215 nemendur voru við nám í skólanum í vetur. Aðsókn að skólanum er gríðarlega mikil, en reynt hefur verið að verða við öllum umsóknum sem berast. Við skólann eru starfræktar tvær lúðrasveitir auk nokkurra annarra minni hljómsveita og samspilshópa. Píanó er enn sem fyrr vinsælasta hljóðfærið, en 64 nemendur stunduðu nám í píanóleik. Þar næst kemur svo gítar, en við skólann geta nemendur lagt stund á klassískan gítarleik og auk þess lært á rafgítar.

Í skólanum er rekin öflug forskóladeild fyrir börn í fyrsta og öðrum bekk grunnskólans. Ólöf María Ingólfsdóttir kennir tónlist á vegum Tónlistarskólans í leikskólum bæjarins.

Tónlistarskóli Seltjarnarness hefur þá sérstöðu að nemendur geta bæði stundað nám í klassískum og rythmískum hljóðfæraleik.

Margir nemendur luku áfangaprófum á skólaárinu eða alls 23. Þar af 19 sem luku grunnprófi og tveir miðprófi. Það er mikið gleðiefni að tveir nemendur skólans  luku framhaldsprófi, Magnús Orri Dagsson á klassískan gítar, nemandi Hinriks Bjarnasonar, og Björgvin Ragnar Hjálmarsson tenórsaxófónleikari, nemandi Hauks Gröndal, sem lauk framhaldsprófi í rytmískri tónlist.

Á skólaslitunum lék Magnús Orri verk eftir Villa Lobos við mikla hrifningu gesta. Björgvin var fulltrúi skólans á Nótunni uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem fram fór í Hörpu í apríl sl. Af því tilefni útsetti Björgvin nokkur íslensk þjóðlög fyrir hljómsveit  og kallaði Sprengisandshviðu.

Katrín Pálsdóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness  afhenti Magnúsi Orra viðurkenningu nefndarinnar fyrir frábæran námsárangur.

Skólastjóri afhenti síðan nemendum sem luku áfangaprófum prófskírteini sín. Gríðarleg vinna liggur á bak við hvert og eitt einasta áfangapróf svo nemendur voru glaðir í bragði er þeir fengu skírteinin afhent. Foreldrar voru vissulega stoltir af börnum sínum enda eiga þeir drjúgan þátt í góðum árangri því stór hluti tónlistarnámsins fer einmitt fram heima.

Gylfi Gunnarsson sleit síðan Tónlistarskóla Seltjarnarness skólaárið 2012-2013. 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?