Stór meirihluti Seltirninga er ánægður með þjónustu bæjarins samkvæmt ítarlegri viðhorfakönnun sem gerð var af Gallup fyrir skemmstu. Af aðspurðum telja rúmlega 85% þjónustu bæjarins á heildina litið vera góða. Athygli vekur að einungis tæp 3% telja hana slæma en 12% segja þjónustuna hvorki góða né slæma. Starfsmenn bæjarins þykja sömuleiðis almennt kurteisir og þjónustulundaðir ef marka má könnunina. Um 90% bæjarbúa telja viðmót og framkomu þeirra góða á meðan einungis rúmlega 2% telja hana slæma.
Seltirningar eru einnig almennt ánægðir með þá þjónustu er börn í bæjarfélaginu njóta en tæplega 91% þeirra sem afstöðu taka telja að bærinn veiti börnum yngri en sex ára góða þjónustu í daggæslu og í leikskólum bæjarins. Yfirgnæfandi meirihluti aðspurðra, eða 95%, telja leikskóla Seltjarnarness veita góða þjónustu. Athygli vekur að ekki er marktækur munur á skoðunum íbúa á gæðum leikskólastarfs eftir aldri og því má telja að almenn ánægja ríki um þessa þjónustuþætti.