Vel á annað þúsund þjóðhátíðargesta fylltu Bakkagarð á sautjánda júní hátíðarhöldum sem fóru fram þar í fyrsta skipti. Góður rómur var gerður að nýrri staðsetningu hátíðarhaldanna, sem undanfarin ár hafa verið á Eiðistorgi, þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið upp á sitt besta.
Vel á annað þúsund þjóðhátíðargesta fylltu Bakkagarð á sautjánda júní hátíðarhöldum sem fóru fram þar í fyrsta skipti. Góður rómur var gerður að nýrri staðsetningu hátíðarhaldanna, sem undanfarin ár hafa verið á Eiðistorgi, þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið upp á sitt besta.
Dagskráin var tvískipt; annars vegar fjölskyldudagskrá yfir daginn, sem leikarinn góðkunni Gói, Guðjón Davíð Karlsson stýrði af einstakri röggsemi og gleði og hreif unga fólkið með sér. Aðrir sem komu fram voru Pollapönk, Wally trúður, dansparið Birkir Örn Karlsson og Rakel Matthíasdóttir, kórinn Meistari Jakob og söngkonan Margrét Aðalheiðar Önnu og Þorgeirsdóttir undir stjórn Ingu Bjargar Stefánsdóttur og að lokum Saga Eurovision, sem skartar Friðriki Ómari, Selmu Björns og Regínu Ósk.
Fjallkona dagsins var nýstúdentinn Gunnhildur Jónsdóttir og ávörp fluttu Lárus B. Lárusson formaður Íþrótta- og tómstundaráðs og Katrín Pálsdóttir formaður menningarnefndar.
Um allan garðinn var nóg við að vera; hoppukastalar, trampólín, andlitsmálun, spákonutjald, vísnagátur, fjölbreytileg leiktæki og leikir eins og frúin í Hamborg og fleira og fleira. Ungmennaráð Seltjarnarness sá um veitingasölu, fimleikastúlkur úr Gróttu sáu um blöðrusölu, Slysavarnarfélagið Varðan sá um Candy-flos sölu og sölutjald með fjölbreytilegum veitingum var á staðnum, auk þess sem ísbíllinn sótti staðinn heim.
Um kvöldið stigu á stokk Dýri Guðmundsson og félagar, Útidúr, trúbadorinn Ragnar Árni Ágústsson og hljómsveitin Camp Keighley. Tónleikar kvöldsins stóðu frá kl. 20-22 og sóttu þá mikill fjöldi barna og ungmenna, sem nýttu tækifærið og léku sér í boltaleik undir dynjandi tónlist, en líklega hefur rigningarsuddinn haft áhrif á dræma þátttöku eldri bæjarbúa.
Sjá fleiri myndir á facebook Seltjarnarnesbæjar