Fara í efni

Þjóðarsáttmáli um læsi undirritaður á Seltjarnarnesi

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri, undirrituðu á dögunum Þjóðarsáttmála um læsi við hátíðlega athöfn í Grunnskóla Seltjarnarness – Valhúsaskóla. 
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimili og skóla

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri, undirrituðu á dögunum Þjóðarsáttmála um læsi við hátíðlega athöfn í Grunnskóla Seltjarnarness – Valhúsaskóla. Þjóðarsáttmáli um læsi er samningur ríkis og sveitarfélaga um sameiginlegt átak í þágu lestrarkennslu og læsis. 


Með þátttöku sinni skuldbindur Seltjarnarnesbær sig til að vinna að þeim markmiðum sem fram koma í samningnum, eins og að setja sér markvissa læsisstefnu, viðmið um lestrarhraða, lesskilning, hljóðkerfisvitund og málþroska sem mæla skal með reglubundnum hætti. Athöfnin hófst með tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Seltjarnarness, þar sem Friðrik Guðmundsson flutti eigið verk, en síðan fluttu ráðherra og bæjarstjóri ávörp áður en samningurinn var undirritaður. Að undirritun lokinni var spilað myndband með laginu Það er gott að lesa, sem tileinkað er átakinu, en það má finna á slóðinni www.youtube.com/watch?v=UMqi4FRTE4Y.

Læsi er lykilatriði
Stjórnendur Grunnskóla Seltjarnarness, Leikskóla Seltjarnarness, Skólaskrifstofu Seltjarnarnesbæjar og Bókasafns Seltjarnarness hafa fyrir hönd viðkomandi stofnana sammælst um samstarfsverkefnið Læsi er lykilatriði, með því verður meðal annars unnið að þeim markmiðum sem sett eru í Þjóðarsáttmála um læsi.  Verkefninu  er fyrst og fremst ætlað að efla lestrargetu barna og ungmenna og bæta árangur nemenda í læsi. Það gengur m.a. út á að auka samfellu í lestrarnámi í leik- og grunnskóla og efla samstarf um lestrarnám á milli skólastiga. Unnið verður að því að efla faglega þekkingu kennara og starfsfólks í leik- og grunnskóla á lestrarfræðum og raunprófuðum aðferðum í lestrarkennslu. Unnin verður heildstæð áætlun um skimanir á leik- og grunnskólastigi, sem hafa forspárgildi fyrir lestrarvanda hjá skólabörnum frá 1. og upp í 10. bekk, og viðbrögð við niðurstöðum þeirra.

Heildstæð lestrar- og læsisstefna fyrir Seltjarnarnesbæ
Ætlaður afrakstur verkefnisins er heildstæð lestrar- og læsisstefna fyrir Seltjarnarnesbæ, sem tekur til  aðkomu framangreindra aðila, auk áætlunar um hvernig fá megi foreldra leik- og grunnskólabarna til aukinnar samvinnu um lestrarnám þeirra. Mikilvægur hluti verkefnisins er að efla meðvitund foreldra um mikilvægi ákveðinna vinnubragða til að efla lestrarfærni barna. Í stefnunni verður lögð áhersla á að auka samstarf skólastofnana við Bókasafn Seltjarnarness og efla þannig virkan stuðning safnsins við lestrarnám barna á Seltjarnarnesi. Aðkoma Skjólaskjóls verður sérstaklega skilgreind, hvað varðar læsi, og lögð verður áhersla á að nýta tækifæri sem felast í góðri samvinnu grunnskólans og Skjólsins.

Byggt á góðum grunni
Á haustdögum 2014 var rætt við alla kennara grunnskólans á árgangafundum um lestur og læsi, árangur skólans á þessu sviði og mikilvægi úrbóta. Mikilvægt er að styrkja kennara einnig í notkun fleiri kennsluaðferða til að tryggja fjölbreytta nálgun í kennslunni. Mælingar á lestrargetu og lesskilningi sýna að of margir nemendur eiga enn í lestrarvanda á mið- og unglingastigi. Því er mikilvægt að fara yfir lestrar- og læsismálin í heild sinni allt frá því að börn hefja leikskólagöngu og þvert á námsgreinar í grunnskólanum með hag nemenda að leiðarljósi og gera hagnýta áætlun sem sést í framkvæmd innan leik- og grunnskóla. Í lestrarstefnunni verða einnig skýrð hlutverk ýmissa aðila sem koma að kennslunni s.s. fagfólks skólanna, foreldra, starfsfólks bókasafns og starfsfólks skólaskjóls.

Hlutverk foreldra - 365 dagar
Starfstími leik- og grunnskóla er takmarkaður á ári hverju  og aðkoma foreldra og forráðamanna að lestrar og læsisnámi barna er því afar mikilvæg allt árið um kring. Markviss fræðsla til foreldra um þróun málþroska, hljóðkerfisvitund, grunnþætti lesturs, lestur, lesskilning, málörvun og þjálfun hljóðkerfisvitundar er hugsuð sem hluti af verkefninu. Í allri fræðslu til handa foreldrum verður gengið út frá þeim áherslum sem unnið er eftir í leik- og grunnskóla og stuðst við ráðgjöf frá sama fagfólki og leiðbeinir starfsfólki skólanna.
Stefnt er að því að foreldrar leikskólabarna fái reglulega fræðslu- og ráðgjöf um málörvun og bernskulæsi og að foreldrum grunnskólabarna bjóðist fræðsla um hvernig þau geta stutt við lestrar- og læsisnám. Áætlun um fræðslu til handa foreldrum verður unnin í samráði við foreldrafélög skólanna.

Bókasafnið  -hluti af daglegu lífi
Bókasafn Seltjarnarness er mikilvægur samstarfsaðili í verkefninu og ætlunin er að auka samstarf stofnana innan bæjarins, í því skini að styðja enn frekar við lestrarnám og stuðla að bættu læsi. Markmiðið er að auka heimsóknir barna og ungmenna á safnið, m.a. með reglubundnum og skipulögðum heimsóknum þeirra þangað. Þannig verður stuðlað að auknum lestri barn og ungmenna almennt, ekki síst utan starfstíma skólanna.  
Lögð verður áhersla á að kynna safnkostinn með þeim hætti að börn velji og kynni bækur fyrir börnum og unglingar að sama skapi fyrir jafnöldrum sínum. Auk þess verður áfram boðið upp á Sumarlestur en það er verkefni sem hefur það að markmiði að viðhalda og auka lestrarfærni barna yfir sumartímann. 

Fagfólk og stuðningur
Skólaskrifstofa hefur með höndum að tryggja skilvirka stoðþjónustu til handa nemendum leik- og grunnskóla og  aðgengi starfsfólks að kennslufræðilegri ráðgjöf. Það er einnig hlutverk skólaskrifstofu að styðja við símenntunaráætlanir skólanna, m.a. með því að skapa starfsfólki tækifæri til að afla sér fræðslu. Þá er hvort tveggja um að ræða hópar starfsfólks geti sótt námskeið og að einstaklingar geti aukið við sérþekkingu sína, sem og að bjóða foreldrum og forráðamönnum leik- og grunnskólabarna, eins og áður er getið, upp á faglega fræðslu.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?