Í tengslum við verkefnið Vistvernd í verki hefur verið sett upp sýning um vistvænni lífsstíl í Bókasafni Seltjarnarness á Eiðistorgi og mun hún standa frá 15. janúar til 15. mars.
Vistvernd í verki er alþjóðlegt umhverfisverkefni fyrir heimili. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Verkefnið er hið eina sinnar tegundar í heiminum svo vitað sé og hafa kannanir sýnt að það skilar miklum og varanlegum árangri í bættri umhverfisvitund og hegðun.
Með ýmsum einföldum breytingum á daglegu lífi má gera lífsstílinn vistvænni án þess að draga úr lífsgæðum. Margt smátt gerir eitt stórt. Með víðtækri þátttöku í slíkum aðgerðum má ná miklum umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið. Vistvernd í verki er aðferð til að koma þessu til leiðar. Reynslan sýnir að vistvænir lífshættir leiða einnig til fjárhagslegs sparnaðar, bæði fyrir samfélagið sem og þær fjölskyldur sem í hlut eiga.
Seltjarnarnesbær hefur tekið höndum saman við Landvernd um að bjóða íbúum þátttöku í verkefninu Vistvernd í verki. Tæplega 600 heimili á landinu hafa tekið þátt í verkefninu og fært þannig heimilishaldið og lífsstílinn í vistvænna horf.
Þeir sem vilja taka þátt í verkefninu eða fá frekari upplýsingar er bent á að hafa sambnd við Hrafnhildi Sigurðardóttur hjá Seltjarnarnesbæ sími 5959 100 eða hrafnhildur@seltjarnarnes.is. Einnig er hægt að skoða heimasíðu verkefnisins www.landvernd.is/vistvernd