Fyrsti viðkomustaður var Keldur á Rangárvöllum og þar tók á móti hópnum bóndinn á staðnum, frú Drífa Hjartardóttir, alþingismaður, og bauð hún til kirkju þar sem hún sagði afar skemmtilega frá sögu kirkjunnar, þjóðsögum úr sveitinni ásamt ýmsum fróðleik um gamla torfbæinn á Keldum. Þar er varðveitt einstök heild bæjarhúsa og útihúsa og er bærinn af elstu gerð torfhúsa og er í umsjá Þjóðminjasafnsins. Hádegisnestið var borðað í gamla bóndabænum sem stendur við hlið torfbæjanna og þó þröngt væri setið fóru allir saddir og glaðir og sögunni ríkari frá Keldum. Síðan lá leið undir Eyjafjöll að Skógum, en þar er ein fegursta sveit landsins með brött og mikilfengin fjöll og yfir fjöllunum gnæfir svo Eyjafjallajökullinn í allri sinni dýrð. Á sögusafninu að Skógum tók á móti hópnum Þórður Tómasson, frumkvöðullinn að stofnun safnsins, og þar var ekki komið að tómum kofanum. Frá Skógum lá leiðin að Moldnúpi-Önnuhúsi undir Eyjafjöllum en þar var snæddur kvöldverður og síðan lá leiðin aftur á heimaslóðir. Veðrið lék við ferðalangana alla leiðina, bjart en skýjað og nokkuð hvasst undir Eyjafjöllunum en það kom ekki að sök því Seltirningar eru vanir svolitlum gusti og klæða sig samkvæmt því. Fararstjórinn lék við hvern sinn fingur og var með góða leiðsögn um suðurlandssveitirnar og hélt uppi rútusöng á heimleiðinni.