Fara í efni

Stjórnvöld tryggi óbreyttan rekstur Bjargs

„Meirihluti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar telur réttast að ríkið semji áfram við Hjálpræðisherinn um rekstur vistheimilisins Bjargs eða annan aðila með sérþekkingu á geðheilbrigðisþjónustu.“ Þetta kemur fram í minnisblaði bæjarstjóra sem lagt var fram á fundi bæjarráðs þann 15. október síðastliðinn.

Stjórnvöld tryggi óbreyttan rekstur Bjargs

„Meirihluti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar telur réttast að ríkið semji áfram við Hjálpræðisherinn um rekstur vistheimilisins Bjargs eða annan aðila með sérþekkingu á geðheilbrigðisþjónustu.“ Þetta kemur fram í minnisblaði bæjarstjóra sem lagt var fram á fundi bæjarráðs þann 15. október síðastliðinn.

Vandi vistheimilis hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum en saga Bjargs spannar hálfa öld og hófst með samstarfi Hjálpræðishersins og Kleppsspítala. Árið 1996 tóku heilbrigðisyfirvöld við samstarfinu af Kleppsspítala og um leið fjármögnun rekstrarsamningsins við Hjálpræðisherinn. Við sameiningu ráðuneyta kom rekstur Bjargs í hlut velferðarráðuneytisins og með samningi frá 5. oktober 2011 fól ráðuneytið Jöfnunarsjóði sveitarfélaga ábyrgð á fjármögnun vistheimilisins.

Fyrir liggur að samningur við núverandi rekstraraðila rennur út um áramótin og því eru íbúar Bjargs og aðstandendur þeirra nú í mikilli óvissu um framtíðina. Velferðarráðuneytið hefur sagt að Seltjarnarnesbær skuli taka við umönnun þessara einstaklinga þar sem þeir hafi lögheimili á vistheimilinu og þar af leiðandi í bæjarfélaginu. Seltjarnarnesbær upplýsti ráðuneytið með bréfi þann 13. september síðastliðinn að vandi vistheimilisins verði ekki leystur með þeim hætti. Engin sérþekking sé til staðar hjá bænum á sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu af þessum toga og að lögin sem ráðuneytið vísi til um málefni fatlaðs fólks hafi gert ráð fyrir að þjónustusvæði fyrir fatlaða þurfi að hafa að minnsta kosti 8.000 íbúa en Seltjarnarnesbær er fámennt sveitarfélag með aðeins um 4.700 íbúa.

Allir eru sammála að mestu skiptir að tryggja velferð og hagsmuni íbúa Bjargs og bærinn telur ljóst að það verði ekki gert með því að hætta skyndilega rekstri vistheimilis eftir hálfa öld, leysa heimilið upp og treysta á að málið leysist af sjálfu sér innan viðkomandi sveitarfélags. Ábyrgðin á áframhaldandi rekstri vistheimilisins er stjórnvalda og það er þeirra að finna lausn sem tryggir íbúum Bjargs þann stuðning og þjónustu sem þeir eiga skilið að fá.

Ásgerður Halldórsdóttir

Bæjarstjóri


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?