Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2023 samþykkt. Grunnþjónusta í forgangi.

Fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2023 var samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar við síðari umræðu miðvikudaginn 14. desember 2022. Þriggja ára áætlun 2024-2026 var einnig samþykkt.

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðu Seltjarnarnesbæjar verði neikvæð um 49.880.251 kr. Niðurstaða A – hluta verði neikvæð um 168.068.000 kr. Niðurstaða B – hluta verði jákvæð um 118.183.000 kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 475.864.000 kr. á samstæðuna.

Höfuðáhersla lögð á að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins í þungu rekstrarumhverfi.

Fjárhagsáætlun ársins 2023 mótast einna helst af afar krefjandi og erfiðu efnahagsumhverfi sem ljóst er að mun lita rekstur bæjarfélagsins á komandi ári auk töluverðrar óvissu vegna þróunar kjara- og efnahagsmála í landinu. Hagræðingaraðgerðir eru nauðsynlegar á öllum sviðum en þó framkvæmdar með þeim hætti að staðinn verður vörður um grunnþjónustu bæjarfélagsins og áherslan verður sem fyrr á menntun og velferð.

Unnið verður að hagræðingu innan samstæðunnar á komandi ári. Til að sýna ábyrgð og gott fordæmi í rekstri bæjarins á erfiðum tímum óskaði bæjarstjóri að eigin frumkvæði eftir því að föst laun hans sem bæjarstjóri verði lækkuð um 200.000 krónur á mánuði á árinu 2023. Bæjarfulltrúar ætla enn fremur að taka á sig 5% launalækkun fyrir setu í bæjarstjórn á árinu 2023. Þessar hagræðingaaðgerðir voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórn í gær og sýnir að við erum öll samstíga um að ná árangri með aðgerðum okkar.

Í áætlun ársins 2023 er gert ráð fyrir lækkun álagningar fasteignagjalda bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Þetta er gert til að koma til móts við gríðarlega mikla hækkun fasteignamats. Fasteignagjöld munu fylgja verðlagsþróun ársins 2023 og hækka því ekki til jafns við stórfellda hækkun fasteignamats.

Hækkanir á gjaldskrám bæjarfélagsins munu taka mið af verðlagsþróun og hækka þannig ekki til jafns við miklar kostnaðarverðshækkanir. Undantekning frá þessu er gjaldskrá leikskóla sem hækkar minna eða um 7,7% sem er undir verðbólgu.

Helstu framkvæmdir Seltjarnarnesbæjar sem fyrirhugaðar eru á árinu 2023 er að hefja byggingu nýrrar leikskólabyggingar en það er lang stærsta verkefnið sem þegar liggur fyrir. Þá er áformað að betrumbæta skólalóðirnar, gert ráð fyrir viðhaldi fasteigna og gatna auk áframhaldandi framkvæmda vegna endurnýjunar á félagsheimili bæjarins. Ljóst má vera að sýna þarf mikla útsjónarsemi í útgjöldum vegna verðlagshækkana á aðföngum og þjónustu.

Ekki er gert ráð fyrir teljandi fjölgun íbúa á árinu 2023 en á árunum 2024 – 2026 er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 500.

„Fjárhagsáætlun ársins 2023 endurspeglar varfærni, ábyrgð og aðhald. Rétt forgangsröðun verkefna, hófstilltar álögur á bæjarbúa ásamt góðri þjónustu við íbúa er okkar helsta leiðarljós við gerð áætlunar ársins 2023. Þetta er fyrsta fjárhagsáætlun þessarar bæjarstjórnar sem tók við nú í sumar. Hún er gerð við afar krefjandi aðstæður þar sem mikil óvissa hefur ríkt um kjarasamninga sem og almennt efnahagsástand hérlendis sem erlendis. Aldrei verður hvikað frá því að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins skóla-, íþrótta- og velferðarmál en það er og verður alltaf forgangsmál.

Aðhaldskrafa var gerð á öll svið bæjarins í áætlunargerðinni sem nam 2-4%. Það er að mínu mati rík ástæða til að þakka öllum sem komu að þessari vinnu fyrir þeirra framlag og útsjónarsemi, ekki síst sviðsstjórum og stjórnendum stofnana en einnig bæjarfulltrúum í minni- og meirihlutanum fyrir góða samvinnu.

Þrátt fyrir hagræðingaaðgerðir í rekstri bæjarins þá verður engin stöðnun á Seltjarnarnesi á nýju ári. Við leggjum t.a.m. áherslu á að hefja byggingu nýs leikskóla því ljóst að þörf er á nýjum rýmum þar sem bæjarbúum mun fjölga á árinu 2024 með tilkomu nýrra íbúa í Gróttubyggð. Eins er mikilvægt bæta aðstöðu barna og starfsfólks sem og að fækka starfsstöðvum leikskólans.

Við ætlum að hækka tómstundastyrk úr 50.000 kr. í 75.000 kr. nú strax á árinu 2023 sem gagnast mun barnafjölskyldum og ungmennum til íþrótta- og tómstundaiðkunar.

Við mætum ósanngjarnri hækkun fasteignamats með því að lækka álagningarstuðul okkar en það er mikið réttlætismál og mun spara íbúum mikla fjármuni.

Við munum áfram hlúa að eldri borgurum eins vel og mögulegt er. Eins bíðum við eftir útspili ríkisvaldsins er varðar viðbótarframlag til fjármögnunar á þeirri mikilvægu þjónustu sem við veitum til einstaklinga með fötlun. Sú þjónusta er stórlega vanfjármögnuð af hendi ríkisins og við eins og öll önnur sveitarfélög bíðum enn niðurstöðu þess máls. „

segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.

Nánar um fjárhagsáætlun ársins 2023 – helstu atriði:

Álagning gjalda:

  • Veltufé frá rekstri verður 864.000 kr. á árinu 2023
  • Fasteignagjöld á íbúðar – og atvinnuhúsnæði munu lækka sem nemur raunhækkun fasteignamats. Lagt er til í áætlun þessari að fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði lækki úr 0,175 í 0,166 af fasteignamati og af atvinnuhúsnæði úr 1,1875 í 1,154.
  • Tengd gjöld lækka utan sorphirðugjalds sem hækkar vegna stóraukins kostnaður við sorphirðu og förgun.
  • Útsvar verður 14,09%. Almennar hækkanir gjaldskráa verða 9,75% utan gjaldskrár leiksskóla en þar nemur hækkun 7,7% sem er undir verðbólgu

Fjárfestingar og helstu framkvæmdir:

  • Bygging nýs leikskóla er í forgangi og verður um 1.300 milljónum varið í það verkefni á næstu þremur árum.
  • Um 150 milljónum verður varið í endurbyggingu Félagsheimilis Seltjarnarness.
  • Um 90 milljónir fara í að ljúka við byggingu búsetukjarna fatlaðra við Kirkjubraut.
  • Settur verður kraftur viðhald og endurgerð skólalóðar Mýrarhúsaskóla á næstu 3 árum
  • Viðhald gatna og göngustíga mun kosta um 50 milljónir á ári á komandi misserum.
  • Endurnýjun búnaðar í Sundlaug Seltjarnarness

Börn og ungmenni:

  • Farsældarlög verða innleidd um samþætta þjónustu til aukinnar farsældar barna.
  • Hækkun tómstundastyrks úr 50.000 kr. í 75.000 kr.
  • Á árunum 2024 - 2025 er stefnt að innleiðingu á heimgreiðslum til foreldra barna frá 12 mánaða aldri sem ekki eru hjá dagforeldrum og bíða eftir plássi á Leikskóla Seltjarnarness.
  • Á árinu mun opna glæsilegur búsetukjarni fyrir fatlað fólk.

Annað:

  • Ný heimsíða Seltjarnarnesbæjar opnaði þann 12.2022 sl. sem er mikil framför í allri upplýsingagjöf og ásýnd bæjarins að auki fá íbúar beinan aðgang með ábendingagátt um allt sem tengist bæjarmálum. Framundan er vinna við endurnýjun á heimasíðum skólanna og bókasafnsins sem gert er ráð fyrir að fari í loftið á árinu 2023 og mun auka aðgengi að upplýsingum um þjónustuna og starfsemina.

  • Stefnt er að því að virkja öflugt frumkvæði íbúa varðandi fegrun og viðhald nærumhverfis. Þar mun bærinn koma að og styrkja skemmtileg viðfangsefni þar sem frumkvæði íbúa verður virkjað og bæjarfélagið mun styðja við.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?