Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar í byrjun árs var tekin fyrir staðsetning sparkvallar með gervigrasi. Nefndin tók jákvætt í staðsetningu sparkvallarins á svæðinu á horni Lindarbrautar og Hofgarða og fól byggingarfulltrúa setja staðsetninguna í grenndarkynningu meðal íbúa í nágrenni vallarins.
Umræddur sparkvöllur er samstarfsverkefni KSÍ og Seltjarnarnesbæjar en meiningin er að um 40 slíkir vellir verðir gerðir víða um land í samstarfi sveitarfélaga og KSÍ. Völlurinn er lítill knattspyrnuvöllur 18 x 33 metrar og ætlaður fyrir börn og unglinga. Hann verður girtur af með viðargirðingu og falla mörkin inn í girðinguna. Hæð girðingarinnar verður 1,2 metrar á hliðum en 2 – 2,6 metrar við endalínur.
Í gildandi deiliskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir að lóðin sé verslunarlóð en börn hafa notað þetta svæði á undanförnum árum til knattspyrnuiðkunar og annarra leikja.