Gylfi Gunnarsson, skólastjóri, sleit Tónlistarskóla Seltjarnarness í Seltjarnarneskirkju miðvikudaginn 21. maí fyrir fullu húsi. Þetta var í átjánda og síðasta sinn sem Gylfi slítur skólanum, þar sem hann mun láta af störfum eftir þetta skólaár, en hann hóf störf við skólann sem gítarkennari haustið 1983.
Gylfi Gunnarsson, skólastjóri, sleit Tónlistarskóla Seltjarnarness í Seltjarnarneskirkju miðvikudaginn 21. maí fyrir fullu húsi. Þetta var í átjánda og síðasta sinn sem Gylfi slítur skólanum, þar sem hann mun láta af störfum eftir þetta skólaár, en hann hóf störf við skólann sem gítarkennari haustið 1983. Með árunum kom hann svo að stjórnun skólans, fyrst sem yfirkennari árið 1994 og síðan sem skólastjóri frá árinu 1996. Gylfa var sérstaklega þakkað fyrir sitt framlag þau 31 ár sem hann hefur starfað í þágu skólans, menningarlífs og alls samfélagsins á Seltjarnarnesi og færði Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri honum veglegan blómvönd sem þakklætisvott.
Athöfnin hófst með því að Björn Kristinsson, nemandi skólans til margra ára, lék Makedónskt þjóðlag ásamt kennara símum Hauki Gröndal og Benedikt Brynleifssyni slagverkskennara skólans.
Í tilefni af fjörutíu ára afmæli tónlistarskólans fór Gylfi yfir helstu atburði í sögu skólans frá stofnun og fram á þennan dag, en í skólanum geta nemendur stundað nám í klassískum og rythmískum hljóðfæraleik ásamt fræðigreinum. Í vetur stunduðu 215 nemendur nám við skólann, en þar eru einnig starfræktar tvær lúðrasveitir auk strengjasveitar. Píanó er enn sem fyrr vinsælasta hljóðfærið. Þar næst kemur gítar, en við skólann geta nemendur lagt stund á klassískan gítarleik og auk þess lært á rafgítar. Í skólanum er öflug forskóladeild fyrir börn í fyrsta og öðrum bekk grunnskólans. Ólöf María Ingólfsdóttir kennir tónlist á vegum Tónlistarskólans á öllum starfsstöðvum Leikskóla Seltjarnarness. Aðsókn er góð fyrir næstkomandi skólaár og áfram verður reynt að verða við öllum umsóknum sem berast.
Fjórtán nemendur luku áfangaprófum á skólaárinu. Þar á meðal var einn nemandi, Björgvin Hjálmarsson, sem lauk framhaldsprófi í rythmískum saxófónleik. Nemendur voru sérstaklega kallaðir fram af þessu tilefni og skólastjóri afhenti þeim prófskírteini sín. Gríðarleg vinna liggur á bak við hvert og eitt einasta áfangapróf svo nemendur voru glaðir í bragði er þeir fengu skírteinin afhent. Foreldrar voru vissulega stoltir af börnum sínum enda eiga þeir drjúgan þátt í góðum árangri, því stór hluti tónlistarnámsins fer einmitt fram heima.
Á skólaslitunum hlutu þær Anna Bergljót Gunnarsdóttir og Sólrún Guðjónsdóttir píanónemendur skólans viðurkenningu frá Menningarnefnd Seltjarnarnesbæjar fyrir framúrskarandi námsárangur.
Að lokinni athöfn fengu nemendur svo afhentan vitnisburð sinn fyrir skólaárið 2013-2014.