Fara í efni

Skólalúðrasveit Seltjarnarness 45 ára!

Fjölmenni var á vortónleikum Tónlistarskóla Seltjarnarness og afmælistónleikum lúðrasveitar skólans, 

Fjölmenni var á vortónleikum Tónlistarskóla Seltjarnarness og afmælistónleikum lúðrasveitar skólans, sem fram fóru í Seltjarnarneskirkju sl. laugardag. Efnisskráin var fjölbreytt þar sem mikill fjöldi nemenda kom fram á tvennum vortónleikum skólans.  Að þeim loknum hófust afmælistónleikar lúðrasveitar skólans, sem heldur upp á 45 ára starfsafmæli sitt í ár.

Á afmælistónleikunum spiluð bæði A- og B-sveitir lúðrasveitarinnar undir stjórn Kára Húnfjörð Einarssonar, en hann hefur leitt lúðrasveitarstarfið síðastliðin 25 ár. Í tilefni afmælisins afhenti Baldur Pálsson, fræðslustjóri, sveitinni 500.000 krónur að gjöf til starfsins f.h. bæjarstjórnar Seltjarnarness og þakkaði Kára og meðlimum sveitarinnar fyrir öflugt og skapandi starf. 

Í vor eru nákvæmlega 45 ár liðin síðan sveitin fór í sitt fyrsta ferðalag en þá var áfangastaðurinn Borgarnes. Í vor ætlar sveitin að bregða undir sig betri fætinum og heimsækja skólahljómsveitina í Stykkishólmi og halda með heimamönnum tónleika af bestu gerð.

Skólalúðrasveit Seltjarnarness

Lúðrasveit Tónlistarskóla Seltjarnarness á góðum degi. 

Ágrip úr sögu Skólalúðrasveitar  Seltjarnarness

Hér á eftir fer ágrip af sögu Skólalúðrasveitar Seltjarnarness, sem tekið var saman af Kára Húnfjörð Einarssyni stjórnanda hennar í tilefni af 40 ára afmæli sveitarinnar árið 2008.

Á fundi skólanefndar Seltjarnarness sem haldin var 20.07. 1966 bar Magnús Erlendsson fram svo hljóðandi tillögu: "Undirritaður leggur til að stofnuð verði skólahljómsveit við Mýrarhúsaskóla á komandi hausti. Hljómsveit þessi verði í formi lúðrasveitar. Ráðinn verði sérmenntaður tónlistarkennari til að annast kennslu og sjá um æfingar og val barna í hljómsveitina."  Tillaga þessi var samþykkt og í gang fór vinna við að panta hljóðfæri og ráða kennara. Haustið eftir voru komin hljóðfæri og ráðin hafði verði Stefán Þ. Stephensen og Kristján bróðir hans til kennslunnar. Þetta var haustið 1967 og ekki leið á löngu þar til hljómsveitin var tilbúin að leika opinberlega. Ekki er vitað um nákvæma dagsetningu en mönnum ber saman um að það hafi verið seinnipartinn í nóvember og því upplagt að miða afmælisdaginn við þann atburð.

Hljómsveitin fór í sitt fyrsta ferðalag þá um vorið og var þá haldið uppí Borgarfjörð, spilað í Borgarnesi og gist í Varmalandi. Einnig kom hljómsveitin fram í Stundinni okkar. Árið 1969 stóð hljómsveitin og leiðtogar fyrir fyrsta Landsmóti skólalúðrasveita hér á Seltjarnarnesi. Fyrst um sinn voru þessi landsmót fámenn, rétt um 100 þátttakendur ef fóru svo stækkandi og hafa farið allt uppí 1200 þátttakendur. Skólalúðrasveitin hefur tekið þátt í öllum landsmótum sem haldin hafa verið vítt og breitt um landið. Sveitin fór á þessum árum að taka meiri þátt í athöfnum bæjarins svo sem að taka lagið á 17. júní og annað slíkt.

Árið 1972 urðu svo stjórnendaskipti í hljómsveitinni, Stefán hætti og við tók Hans Ploder. Á meðan hann var með hljómsveitina var Tónlistarskóli Seltjarnarness stofnaður 1974 var sveitin þá innlimuð í Tónlistarskólann, fékk nýtt nafn Skólalúðrasveit Seltjarnarness en hafði verið fram að þeim tíma heitið Skólalúðrasveit Mýrarhúsaskóla. Árið 1978 tók Atli Guðlaugsson við stjórn sveitarinnar og gegndi því einungis eitt ár en þá fékk hann tilboð um skólastjórastarf úti á landi. 

Um haustið 1979 tók svo við stjórnun sveitarinnar Skarphéðinn Húnfjörð Einarsson, einnig þá varð talsverðar mannabreytingar þannig að sveitin var fámenn en góðmenn fyrst um sinn. Undri stjórn Skarphéðins dafnaði sveitin vel, fór á landsmót, hélt tónleika, spilaði t.d. þegar Eiðistorgið var vígt. Árið 1983 hélt sveitin í sína fyrstu utanlandsferð. Áfram fjölgaði í sveitinni enda húsakostur orðinn miklu betra eftir að Tónlistarskólinn flutti í eigið húsnæði sem byggt við Skólabraut og var fullgert 1982. Það var svo árið 1988 að stofnuð var yngri deild lúðrasveitarinnar. Anna Benassi sem þá var klarínettukennari við tónlistarskólann stjórnaði yngri sveitinni. Vorið 1989 tók svo sveitin að sér að halda Landsmót S.Í.S.L.  Haustið 1989 var Snorri Valsson ráðin til að stjórna sveitinni og starfaði hann í eitt ár.

Í september 1990 tók við sá sem þetta skrifar og hefur gengt starfi stjórnanda Skólalúðrasveitar Seltjarnarness fram til dagsins í dag. Miklar breytingar höfðu verið á meðlimafjölda sveitarinnar, eldri deildin öll hætt og yngri deildin orðin fáliðuð, það voru ekki nema 13 sem mættu á fyrstu æfinguna sem ég stjórnaði með Önnu Benassi mér til fulltingis. Árið 1992 hélt sveitin svo aftur til útlanda og dvaldi viku tíma við æfingar og tónleikahald í Herlev sem er vinabær Seltjarnarness í Danmörku ásamt hljómsveitum frá vinabæjum annarra Norðurlanda. 

Þetta var upphaf af mikilli ferðalagalotu sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Tveim árum seinna 1995 fór sveitin til Skotlands. Á afmælisárinu 1997 fór sveitin í tvær utanlandsferðir, bæði eldri og yngri deildin, sú eldri fór til New York og spilaði til að mynda við frelsisstyttuna þaðan lá leiðin til Kanada þar sem við tókum þátt í tónlistarhátíð Niagara International Music Festival, þar fórum við m. a. í bátsferð upp að fossinum mikla. Yngri deildin fór til Ósló síðan á Gautaborgar tónlistarhátíðina þar sem mikið var spilað og svo enduðum svo í Kaupmannahöfn. Þetta haust hélt sveitin afmælistónleika í Mýrarhúsaskóla og spilaði í fyrsta skipti í þrem deildum. Aldamótaárið tók eldri sveitin þátt í tónlistarhátíð sem haldin var í Þrándheimi þar sem borgin var ein af menningar borum Evrópu það árið, þar urðum við svo fræg að sitja á næsta bekk við Norsku drottninguna á tónleikum í Dómkirkjunni við Niðarós. 

Sumarið eftir 2002 tók hljómsveitin þátt í Gautaborgar tónlistarhátíðinni og vann keppni sem þar var haldin. Árið 2004 hélt sveitin til Vínarborgar og tók þar þátt í tónlistarhátíð sem haldin er það reglulega við spiluðum á einum 4 stöðum í Austurríki og skemmst er frá því að segja að fullt var út úr dyrum á öllum tónleikunum. RÚV tók upp prógrammið sem sveitin var með á efnisskránni í þessari ferð og var það leikið í heild sinni á Gamlársdag 2004. Á þessum tíma var yngri sveitinni búin að vaxa svo fiskur um hrygg að hún var farin að undirbúa utanlandsferð og einnig var farið að æfa í þrem hópum aftur. Gautaborg var heimsótt aftur og nú var það yngri sveitin sem hreppti fyrsta sætið í keppninni það árið.

Veturinn 2005 - 2006 fór meðlimafjöldi Skólalúðrasveitar Seltjarnarness í fyrsta sinn yfir eitt hundrað einstaklinga sem verður að teljast nokkuð gott í ekki stærra sveitarfélagi. Hljómsveitin tók alveg nýja stefnu og setti upp söngleik 2006, söngleikurinn sem byggður var á kvikmyndinni The Commitments fékk nafnið Sálsveitin Skuldbinding og var sýndur í Félagsheimilinu 8 sinnum fyrir fullu húsi. Atli Þór fyrrverandi túbuleikari sveitarinnar skrifaði handrit og leikstýrði ásamt Bryndísi konu sinni, undirritaður útsetti tónlistina fyrir hljómsveitina. Vorið 2006 fækkaði svo aftur í sveitinni þegar elsti hópurinn hætti eftir frábæra ferð sem farin var um páskanna til Boston. Þar var leikið í menntaskólum og heimsóttir bæði Berklee og Harvard háskólarnir í Boston. Krakkarnir voru búin að vera meðlimir hljómsveitarinnar í 10 ár og höfðu ekki tölu á öllum þeim stöðum sem þau höfðu komið á í formi æfingabúða, tónleika og ferðalaga.

Yngri sveitin fór einnig til útlanda vorið 2007 stefnan var tekin á Ungverjaland og var ferðin vægast sagt eftirminnileg í alla staði og undirtektirnar sem sveitin fékk á lokatónleikum sínum í Ungverjalandi vori þannig að undirritaður man ekki eftir öðru eins. Afmælistónleikar í Seltjarnarneskirkju haustið 2007 þegar sveitin hafði náð 40 ára aldri. Vorið 2008 fór sveitin til Amsterdam, lék á strætum og torgum, ein og í samneyti við aðra hljóðfæraleikara. 

Þetta er að sjálfsögðu engan veginn tæmandi æviágrip því það má segja að hver æfing og hver atburður í lífi svona hljómsveitar sé lítil saga útaf fyrir sig. Læt ég máli mínu lokið þó svo ótalmargt er ósagt.

Kári Húnfjörð Einarsson



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?