Í auglýsingu stjórnvalda um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, dagsett 21. apríl 2020 segir í 8. grein um takmörkun gildissviðs:
Ákvæði 3., 4. og 5. gr. auglýsingar þessarar taka ekki til nemenda í starfsemi leik- og grunnskóla þannig að þar sé hægt að halda óskertri vistun og kennslu. Sama á við um starfsemi dagforeldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og aðra lögbundna þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Í því felst að ekki eru takmarkanir á því hversu margir nemendur geti verið saman komnir eða nálægð þeirra í framangreindri starfsemi, þ.m.t. í frímínútum og mötuneyti. Öðrum en nemendum ber í framangreindri starfsemi að fara eftir ákvæðum auglýsingarinnar eins og unnt er.
Viðkvæmir hópar
- Starfsmenn og nemendur sem eru í skilgreindum áhættuhópum vegna Covid-19 haldi sig heima þar til leiðbeiningar um annað koma frá stjórnvöldum. Nauðsynlegt er að starfsfólk skili inn læknisvottorði þar um.
- Starfsfólk og börn með kvef- eða flensueinkenni komi ekki í skóla- eða frístundastarf.
- Ef foreldrar eða aðrir heimilismeðlimir ungra barna sem ekki geta virt eða skilið fjarlægðarmörk, sitja fyrirskipaða sóttkví. Gildir áfram að börnin taki ekki þátt í skóla- og frístundastarfi.
- Ef brýnar ástæður eru til geta foreldrar sótt um leyfi fyrir börn sín frá skólasókn. Slíkar beiðnir skulu vera skriflegar og þar staðfesta foreldrar að þeir beri fulla ábyrgð á námi nemenda á meðan leyfi varir. Leyfisbeiðnir eru lagðar fram í nemendaverndarráði áður en að skólastjóri tekur ákvörðun um samþykki eða synjun.
- Ef leyfi er samþykkt hefur umsjónarkennari samband við nemanda og foreldra 2-3 sinnum í viku til að fylgjast með líðan og framgangi náms.
Almenn sóttgát
- Áfram skal gera ráð fyrir viðbótarþrifum og sprittun í skóla- og frístundastarfi.
- Áfram skal gætt sóttgátar í allri umgengni um húsnæði og í samskiptum.
- Fullorðnir skulu halda 2 metra fjarlægð sín á milli eins og aðstæður leyfa og ekki er heimilt að fleiri en 50 fullorðnir komi saman í sama rými.
Starfsmenn
- Mikilvægt er að allri smitgát sé viðhaldið, sérstaklega í sameiginlegum rýmum sem margir nýta s.s. salerni og kaffistofur.
- Ekki séu haldir starfsmannafundir nema að hægt sé að viðhafa 2 metra fjarlægðarregluna og þá aldrei með fleiri en 50 manns.
- Undirbúningstímar starfsfólks verði teknir heima ef aðstæður hamla 2 metra reglunni.
- Starfsmenn fjölskyldusviðs sem vinna á fleiri en einni starfsstöð geta aftur hafið venjulega vinnu frá 4. maí.
Dagforeldrar
- Starfsemi dagforeldra verður með venjubundnum hætti.
Starf í leikskóla
- Opnunartími leikskóla verður 7:45 – 16:30 og í lok dags verði gengið frá og næsti dagur undirbúinn.
Kennsla í grunnskóla
- Almenn kennsla hefst samkvæmt stundaskrá. Þetta á við um allar list- og verkgreinar, íþróttir og sund og bóklega kennslu. Hvatt er til þess að íþróttakennsla sé utandyra líkt og tíðkast gjarnan á vordögum.
Frímínútur og útivera
- Frímínútur og útivera sé með hefðbundnum hætti en hvatt er til þess að skipulagðir séu leikir á skólalóð/útisvæði grunnskóla til að nemendur njóti frímínútna í ríkara mæli.
Mötuneyti
- Matarþjónusta fyrir börn verði með venjubundnum hætti.
- Í matarþjónustu við starfsfólk skal áfram gæta smitgátar. Forðast skal óvarin matvæli s.s. ávaxtabita úr skál.
Viðburðir, vettvangsferðir og skólaakstur
- Áhersla sé lögð á vettvangsferðir og nýtingu náttúru- og leiksvæða í nágrenni leik-, grunnskóla og frístundaheimila samhliða hefðbundinni útiveru.
- Vettvangsferðir með rútum og strætó eru heimilar.
- Sveitaferðir leikskóla með þátttöku foreldra falli niður eða verði skipulagðar með öðrum hætti.
- Ekki sé farið í gistiferðir s.s. í skólabúðir og útskriftarferðir nema hægt sé að tryggja smitgát á milli fullorðinna einstaklinga (þar með talið 2 metra regluna) og allar sóttvarnir í gistihúsnæði.
- Ekki verði haldnar vorhátíðir skóla eða aðrir slíkir viðburðir með þátttöku foreldra.
- Útskriftarathafnir þurfa að taka mið af þessum leiðbeiningum, þ.e. séu án aðkomu foreldra, fjöldi starfsmanna í rými sé ekki meiri en 50 og þeir geti haldið 2 metra regluna. Hugað sé að því að nýta „fjarfundatækni“ til að bjóða upp á óbeina þátttöku.
Frístundaheimili
- Starfsemi frístundaheimila verður með venjubundnum hætti.
Félagsmiðstöðvar
- Starfsemi félagsmiðstöðva verður með venjubundnum hætti.
Samstarf við aðra skóla eða frístundaheimili
- Samstarf milli leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og frístundaheimila er með venjubundnum hætti en starfsmenn sýni eins og í öðrum aðstæðum smitgát, fjarlægðar- og fjöldatakmörk.
Foreldrar
- Viðburðir í skóla- og frístundastarfi verði án þátttöku foreldra. Hugað sé að því að nýta „fjarfundatækni“ til að bjóða upp á óbeina þátttöku.
- Foreldrar komi ekki inn í grunnskóla og frístundaheimili nema nauðsynlegt sé.
- Foreldrar komi áfram aðeins inn í anddyri eða fataklefa í leikskóla og aðeins einn með hverju barni.
- Fundir skóla með einstaka foreldrum eru heimilir í þar til skilgreindum rýmum ef hægt er að fylgja viðmiðum um smitgát.
Þjónusta við skóla og nemendur
- Þjónusta þjónustumiðstöðvar og fjölskyldusviðs við skóla- og frístundastarf verði með venjubundnum hætti. Æskilegt að hafa fjarfundi þar sem það er kostur en hægt að halda fundi á staðnum ef smitgát er viðhöfð.
- Iðnaðarmenn og birgjar þurfa að sýna ítrustu sóttgátt innan veggja starfsstöðva fjölskldusviðs.
- Forðast skal að gestir og aðrir utanaðkomandi noti vinnuaðstöðu, kaffistofu og salerni starfsmanna viðkomandi skóla.
Tónlistarskóli og lúðrasveitir
- Kennsla verður með venjubundnum hætti. Fjarkennsla getur áfram verið valkostur eftir því sem hentar og við á. Æfingar lúðraveita hefjast að nýju.
- Kennarar geta kennt í fleirum en einum skóla en skulu ekki fara á kaffistofu starfsmanna viðkomandi grunnskóla og skulu gæta ítrustu sóttvarna í allri umgengni.