Fara í efni

Skemmtileg jólahátíð bókasafnsins

Það var mikil stemning á jólahátíð bókasafnsins sem haldin var í vikunni þegar að jólin voru spiluð inn á jólatónstöfum, jólasveinar komu í heimsókn og dansað var í kringum bókajólatréð.
Dansað í kringum jólatréð á jólahátíð bókasafnsins.
Dansað í kringum jólatréð á jólahátíð bókasafnsins.

Það ríkti með eindæmum mikil spenna og gleði á jólahátíð bókasafnsins miðvikudaginn 7. desember sl. Hátíðin hófst með jólatónstöfum þegar að krakkarnir í Skólalúðrasveit Tónlistarskóla Seltjarnarnarness spiluðu fyrir fullu húsi undir stjórn Kára Einarsson skólastjóra. Unga tónlistarfólkið stóð sig afburðavel og ljóst að þau eiga framtíðina fyrir sér í tónlist. Kári og Sverrir Hjaltason, básúnuleikari og eldri nemandi í tónlistarskólanum, tóku svo við og léku hvert jólalagið á fætur öðru og komu gestum á öllum aldri í mikla jólastemningu.

Toppurinn á jólahátíðinni var svo þegar að tveir hressir jólasveinar birtust á bókasafninu til að hitta börnin. Hátíðin breyttist snarlega í sannkallað jólaball þegar að jólasveinarnir, börn og foreldrar dönsuðu saman í kringum fallega bókajólatréð undir tónlistarflutningi Sverris og Kára. Jólasveinarnir léku á alls oddi og skemmtu sér vel eins og allir á safninu, sungu með börnunum, gáfu mandarínur og fengu að vera með nokkrum á myndum. Síðast en ekki síst tóku þeir á móti óskum um hvað þeir ættu helst að setja í skóinn enda styttist óðfluga í skór af öllum stærðum og gerðum fari út í gluggana á Seltjarnarnesi.

Jólahátíð bókasafnsins var svo sannarlega velheppnuð og ekki annað að sjá en að bæði stórir sem smáir hefðu verið í miklu jólaskapi og notið alls jólafjörsins sem boðið var upp á.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?