Laugardaginn 18. mars varð Sif Pálsdóttir (Gróttu) Íslandsmeistari í fjölþraut í áhaldafimleikum kvenna. Hún sigraði með glæsibrag og hampar nú þessum titli í fimmta sinn.
Sif sem verður 19 ára í sumar varð fyrst Íslandsmeistari árið 2000 þá aðeins 13 ára gömul og hélt þeim titli fjögur ár í röð. Hún varð í öðru sæti árin 2004 og 2005 og er nú búin að endurheimta titilinn.
Hún varð einnig Íslandsmeistari í gólfæfingum og á tvíslá.
Það er óhætt að segja að hún sé afbragðs íþróttakona og án efa besta fimleikakona sem Ísland hefur átt hingað til.
Það verður nóg að gera hjá henni á næstunni en hún keppir á norðurlandamóti senjora sem fram fer hér á landi í apríl og stefnir á að keppa á heimsmeistaramótinu haustið 2006.
Er henni óskað til hamingju með árangurinn og óskað alls hins besta í framtíðinni.