Fara í efni

Seltjarnarnesbær verður stærsti heiti reitur í heimi

Seltjarnarnes verður allt gert að einum risastórum heitum reit (HotSpot), samkvæmt samkomulagi sem Vodafone og bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi kynntu í Golfskála Seltjarnarness í dag.

Seltjarnarnes verður allt gert að einum risastórum heitum reit (HotSpot), samkvæmt samkomulagi sem Vodafone og bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi kynntu í Golfskála Seltjarnarness í dag.

Samkomulagið felur í sér, að íbúar Seltjarnarness, fyrirtæki og gestir í bænum komast í þráðlaust háhraða netsamband hvar og hvenær sem er. Vodafone annast uppbyggingu og rekstur þessa þráðlausa netkerfis en Seltjarnarnesbær leggur fram rafmagn og aðstöðu þar sem hægt er að koma fyrir nauðsynlegum búnaði.

Jónmundur Guðmarsson og Björn ViglundssonBjörn Víglundsson framkvæmdastjóri markaðssviðs Vodafone afhendir Jónmundi Guðmarssyni bæjarstjóra fyrsta sendinn (c) 2007 Óskar J Sandholt

Seltjarnarnesbær telur um 5000 íbúa og innheimtir eitt lægsta útsvar á landsvísu. Þrátt fyrir smæð hefur bærinn sinnt forystuhlutverki sveitarfélaga í nútíma gagnaflutningi og nú munu íbúar, fyrirtæki og gestir hafa möguleika á aðgangi að háhraða þráðlausum fjarskiptum til viðbótar við ljósleiðaratengingar sem komnar eru í öll hús.

Fyrr á þessu ári varð Seltjarnarnesbær fyrsta sveitarfélagið í heimi til að verða ljósleiðaravætt. Þráðlaust Seltjarnarness er liður í að auka enn frekar þjónustu við bæjarbúa.

Með undirritun þessarar viljayfirlýsingar tekur Seltjarnarnesbær skref í átt að verða fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem býður gestum og gangandi upp á þráðlausa nettengingu innan dyra sem utan. Bæjarbúar og gestir geta notið góðs af útvist, göngutúr við sjávarsíðuna eða safnaheimsóknum á Seltjarnarnesi og alls staðar komist í netsamband.

Hátækni sveitarfélag sem kemur til móts við þarfir fjölskyldunnar í hröðu samfélagi nútímans, eru meðal þeirra markmiða sem bæjarstjórn Seltjarnarness stefnir að og er þráðlaust sveitarfélag stórt skref í átt að settu miði.

Í viljayfirlýsingu Seltjarnarnesbæjar og Vodafone kemur fram skýr vilji beggja aðila um að framgangur verkefnisins verði eins hraður og kostur er. Tæknileg úttekt á nauðsynlegu umfangi uppbyggingar fer fram á næstunni og vinna við verkefnið ætti að geta hafist fljótlega í kjölfar úttektarinnar.

Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. sem skráð er á OMX Nordic Exhange á Íslandi. Starfsmenn Vodafone eru um 350 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp. GSM þjónusta Vodafone nær til 98% landsmanna og með samstarfi við Vodafone Group, eitt öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heimi, er viðskiptavinum Vodafone tryggð örugg farsímaþjónusta um allan heim.

Sjá einnig frétt Mbl.is

Sjá einnig frétt Visir.is


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?