Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) vinnur um þessar mundir að gerð staðla sem skilgreina eiga tæknifærni kennara. Markmið vinnunnar er að styðja við kennara og auka hæfni þeirra til að miðla þekkingu á tímum örrar tækniþróunar þar sem meðal annars er komin upp sú staða að nemendur þekkja betur til tækninnar en kennararnir.
Staðlarnir beinast fyrst og fremst að því að samþætta tækniþekkingu við uppeldis- og kennslufræði og skipulagningu skólastarfs. Vonast er til að tilkoma staðlana stuðli að betra menntakerfi sem aftur skili hæfara fólki út á vinnumarkaðinn.
Óskari J. Sandholt, framkvæmdastjóra fræðslu-, menningar- og þróunarsviðs Seltjarnarnesbæjar var boðið að vera einn af þeim sérfræðingum sem fara yfir tillögur frá UNESCO, meta gagnsemi þeirra og benda á kosti og galla. Verkefnið er umfangsmikið og koma sérfræðingar frá öllum heimsálfum að starfinu.