Fara í efni

Seltjarnarnesbær tekur þátt í verkefninu "Öruggt samfélag"

Ákveðið hefur verið að Seltjarnarnesbær taki þátt í verkefninu Öruggt samfélag sem Lýðheilsustöð stendur að hér á landi. Markmið verkefnisins er að efla slysa- og ofbeldisvarnir í bæjarfélaginu og auka þannig öryggi og velferð íbúa Seltjarnarness.

Ákveðið hefur verið að Seltjarnarnesbær taki þátt í verkefninu Öruggt samfélag sem Lýðheilsustöð stendur að hér á landi. Markmið verkefnisins er að efla slysa- og ofbeldisvarnir í bæjarfélaginu og auka þannig öryggi og velferð íbúa Seltjarnarness. Stefnt er að því að lágmarka slysatíðni eins og mögulegt er sem og tíðni ofbeldisverknaða.

Hugmyndafræði verkefnisins er sótt til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, en verkefnið „Safe Communities“ hefur verið starfrækt á alþjóðavísu frá árinu 1989.

Fyrsta mál á dagskrá er að kortleggja stöðu slysa- og ofbeldistíðni á Seltjarnarnesi og skipa þverfaglegan stýrihóp sem vinnur að innleiðingu verkefnisins. Bæjarstjóri er formaður stýrihópsins og stýrir fundum. Áætlað er að hópinn skipi fulltrúar sveitafélagsins, skóla, heilsugæslu, lögreglu, kirkju, íþróttamiðstöðvar, félagsþjónustu og öldrunarmála. Einnig mun verkefnastjóri slysavarna hjá Lýðheilsustöð sitja í hópnum þar sem Seltjarnarnes er fyrsta sveitarfélagið hér á landi sem tekur þátt í verkefninu.

Stýrihópurinn kemur að framkvæmd verkefnisins og gagnaöflun og hann útbýr stöðuskýrslu tvisvar á ári sem hann skilar til Lýðheilsustöðvar. Stýrihópurinn beitir sér fyrir aðgerðum til að efla slysa- og ofbeldisvarnir þar sem talin er þörf á úrbótum.

Þetta er mjög skemmtilegt verkefni, nú þegar er margt vel gert hvað varðar slysa- og ofbeldisvarnir í sveitarfélaginu en með þátttöku í verkefninu vonumst við til að fá betri heildarsýn yfir stöðu mála hér í bæ og hvar tækifæri liggja til að gera úrbætur.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?