Fara í efni

Seltjarnarnesbær innleiðir Google Apps fyrst sveitarfélaga á Íslandi

Innleiðingu á Google Apps hópvinnukerfinu í Grunnskóla Seltjarnarness lýkur á næstunni. Reiknað er með að nemendur geti hafið vinnu í kerfinu um páskaleytið en starfsfólk skólans mun skipta yfir í kerfið við upphaf næsta skólaárs.

Innleiðingu á Google Apps hópvinnukerfinu í Grunnskóla Seltjarnarness lýkur á næstunni. Reiknað er með að nemendur geti hafið vinnu í kerfinu um páskaleytið en starfsfólk skólans mun skipta yfir í kerfið við upphaf næsta skólaárs.

Google Apps er hópvinnukerfi sem kemur í stað Office pakkans eða annarra ritvinnslu-, töflureikni- eða póstforrita. Kerfið hefur verið í notkun hjá skólum og fyrirtækjum víðsvegar um heim um nokkurt skeið með góðum árangri. Kerfið er ókeypis upp að ákveðnum fjölda notenda. Seltjarnarnesbær hefur hins vegar fengið leyfi frá Google til notkunar á kerfinu án endurgjalds, þrátt fyrir að fjöldi notenda fari fram úr mörkum. Innleiðing á Google Apps mun því hafa umtalsvert fjárhagslegt hagræði í för með sér fyrir bæinn, en áætlað er að sparnaður vegna hugbúnaðarleyfa og annars hagræðis hlaupi á milljónum. Að auki hefur verið bent á að veflægur hugbúnaður líkt og Google Apps sé að líkindum það sem vænta megi að vinni stöðugt meira á í náinni framtíð. Því er mikilvægt að kenna nemendum að umgangast slíkan hugbúnað.

Að sögn bæjarstjóra, Ásgerðar Halldórsdóttur, samræmist þessi nýbreytni vel markmiðum Seltjarnarnesbæjar um að vera í fremstu röð hvað varðar skólastarf og nýjungar þar. Verkefnið komi einnig til með að draga úr kostnaði bæjarins sem er mikið kappsmál í því árferði sem nú ríki.

Verkefninu er stýrt af framkvæmdastjóra fræðslu-, menningar- og þróunarsviðs bæjarins, Óskari J. Sandholt.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?