Fara í efni

Seltjarnarnesbær innleiðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Undirritaður var í vikunni samstarfssamningur Seltjarnarnesbæjar við UNICEF á Íslandi og Félagsmálaráðuneytið um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög

Barnasáttmáli

Í vikunni undirritaði Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar, samstarfssamning við Unicef á Íslandi og Félagsmálaráðuneytið um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Samningurinn markar þau tímamót að Seltjarnarnesbær hefur vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stefnir bæjarfélagið að því að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF á Íslandi. Seltjarnarnesbær ásamt fjórum öðrum sveitarfélögum sem eru nú að hefja þessa vegferð bætast þar með í hóp 12 annarra sveitarfélaga sem vinna nú markvisst að því að innleiða barnasáttmálann og gera réttindi barna að veruleika með stuðningi frá UNICEF á Íslandi og Félagsmálaráðuneytinu. 

,,Þetta er mikill ánægjudagur og við hjá Seltjarnarnesbæ hlökkum til að takast á við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og munum gera það af metnaði. Barnasáttmálinn útskýrir hvað það þýðir að vera barn, hver öll réttindi barna eru sem og skyldur foreldra og stjórnvalda. Sáttmálinn leggur þær skyldur á sveitarfélög að grípa á markvissan hátt til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála. Sáttmálinn tryggir börnum enn fremur rétt til að láta í ljós skoðanir sínar á öllum málum sem þau varða með einum eða öðrum hætti, í takt við aldur þeirra og þroska. Það skiptir miklu máli að hafa börnin með í ráðum, hlusta og taka tillit til skoðana þeirra. Að þessu verkefni vill bæjarstjórn Seltjarnarness vinna með öllum í okkar góða samfélagi og stofnunum bæjarins.“ Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar: 


Barnasáttmáli
F.v. Helga Elísabet Guðlaugsdóttir, umsjónarmaður verkefnisins Fjarðabyggð, Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri Rangárþings eystra, Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps og Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness.


Undirritunin fór fram í húsakynnum UNICEF á Íslandi að viðstöddum félagsmálaráðherra og fulltrúum þeirra fimm sveitarfélaga sem leggja nú af stað í þennan mikilvæga leiðangur. Leiðangur þar sem að mannréttindi og þarfir barna verða sett í forgrunn í allri þjónustu við börn sem og þegar að ákvarðanir og verkferlar eru skoðaðir. 


Barnasáttmáli
F.v. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF undirrita samstarfssamninginn.


„Ég er mjög ánægður með kraftinn sem sveitarfélög landsins hafa sett í verkefnið og nú er um fjórðungur sveitarfélaga á Íslandi að vinna í því að verða Barnvænt sveitarfélag. Það er mikið gleðiefni að sveitarfélög landsins setji málefni barna og fjölskyldna í svo skýran forgang og ómetanlegt að finna áhugann á verkefninu,“ Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.


Verkefnið Barnvæn sveitarfélög miðar að því að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga. Árið 2019 gengu UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið til samstarfs um framkvæmd verkefnisins undir formerkjunum Barnvænt Ísland. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum. Á næstu tveimur árum er stefnt að því að vel á annan tug sveitarfélaga bætist í hópinn sem nú þegar telur 17 sveitarfélög.

„Undirskriftin eru mikil tímamót þegar við tökum þetta stóra skref í áttina að Barnvænu Íslandi. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá fimm ólík sveitarfélög hefja vegferðina í sama skrefi því það undirstrikar að Barnasáttmálinn er algildur og öll sveitarfélög geta orðið barnvæn,“ Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans.


Barnasáttmáli
F.v. Ásmundur Einar Daðason, Ásgerður Halldórsdóttir, Soffía Ásgeirs Óskarsdóttir, María Björk Óskarsdóttir og Baldur Pálsson



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?