Dætur Unnar Óladóttur (1913-1998) gáfu í dag Seltjarnarnesbæ málverk af Nesstofu til minningar um móður sína sem var fædd og uppalin í Nesi við Seltjörn. Unnur var fyrsti lærð fótsnyrtirinn á Íslandi og lærði hjá dr. Schools í Stokkhólmi. Að námi loknu vann hún við iðn sína á heimilum í Reykjavík.
Myndin sem er um 100 ára gömul fékk Unnur að gjöf um miðjan 7. áratug síðustu aldar sem þakklætisvott fyrir þjónustu sína við fjölskyldu Jóns Helgasonar, biskups. Myndin er af Nesi við Seltjörn og verður samkvæmt ósk gefenda varðveitt í Nesstofu.
Unnur fæddist í austurkamesinu Kristínar-megin í Nesi þann 13. desember 1913. Móðir hennar Aðalheiður Ásmundsdóttir var vinnukona í Nesi hjá Kristínu Ólafsdóttur. Unnur var alin upp hjá Kristínu sem veitti henni sömu tækifæri og sínum eigin börnum. Hún gerði Unni meðal annars kleift að fara til Svíþjóðar til að mennta sig. Unnur ól allan sinn aldur á Seltjarnarnesi nema síðustu árin er hún dvaldi á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún andaðist 3. nóvember 1998.