Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi undirritaði í Stokkhólmi á dögunum samkomulag um að Seltjarnarnesbær verði fulltrúi Íslands í alþjóðasamtökunum INEC (International Network of E-Communities).
Bæjarfélaginu var boðin innganga í samtökin í vor eftir að stjórn þeirra hafði kynnt sér ljósleiðaraáform bæjarfélagsins og þau verkefni sem í farvatninu eru og snúa að rafrænni þjónustu. INEC eru fjölþjóðleg samtök forystumanna í þróun háhraðatenginga og rafrænnar þjónustu. Þannig eru í samtökunum fulltrúar borga, svæða og þjóðlanda.
Meðal meðlima má nefna Stokkhólm, Amsterdam, Möltu, Utah, Dubai og Malasíu. Seltjarnarnes mun eiga fulltrúa í stjórn samtakanna og á þann hátt eiga þátt í að móta ákvarðanatöku og stefnumótun til framtíðar.
Fulltrúar Íslands á ráðstefnu INEC, frá vinstri: Magnús Salberg Óskarsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Jónmundur Guðmarsson og Óskar Sandholt frá Seltjarnarnesbæ, Stefán Guðjohnsen frá Cisco Ísland og Eiríkur Hrafnsson frá Idega