Tímaritið Vísbending útnefndi í janúar „draumasveitarfélag“ Íslands. Blaðið hefur um nokkurt skeið gefið sveitarfélögum landsins einkunn samsett úr fjölmörgum þáttum svo sem útsvarshlutfalli, breytingum á íbúafjölda, afkomu sem hlutfalli af tekjum, hlutfalli skulda af tekjum og veltufjárhlutfalli. Að þessu sinni voru Seltjarnarnes og Garðabær einu sveitarfélögin er hlutu hærra en 7 í einkunn og stóðu næstu tvö, Kópavogur og Eyjafjarðarsveit, þeim nokkuð af baki.
Það sem gerir Seltjarnarnes eitt eftirsóttasta sveitarfélag landsins er samkvæmt Vísbendingu í fyrsta lagi að þar er útsvarið lægra en annars staðar. Miðað við fjölskyldu með 5 milljónir í árstekjur munar það um 34 þúsundum á ári sem gerir það að verkum að ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar væru 1% hærri á ári. Í öðru lagi er skuldastaða bæjarins talin til fyrirmyndar en til frádráttar kemur að veltufjárhlutfall gæti verið hagstæðara sem og þróun íbúafjölda. Reykjavík nær einungis einkunninni 5 sem setur höfuðborgina í 15 sæti af 38 stærstu sveitarfélögunum.