Seltirningar geta borið útgjöld sín vegna fasteignagjalda saman við útgjöld íbúa nokkurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að umtalsverðu munar í kostnaði fasteignaeigenda eftir búsetu.
Útsvar á Seltjarnarnesi hefur lækkaði úr 12,35% í 12,10% en í nágrannasveitarfélögunum er útsvarið umtalsvert hærra, eða allt 13,03%. Sömuleiðis lækkar álagningarstuðull fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði og vatnsskattur.
Eftir ofangreinda breytingu verða allir gjaldastuðlar fasteignagjalda auk útsvars þeir lægstu á höfuðborgarsvæðinu sem í senn endurpeglar sterka fjárhagsstöðu Seltjarnarnesbæjar og vilja bæjaryfirvalda til að láta skattgreiðendur njóta traustrar stöðu og hagfellds rekstrar bæjarsjóðs með lækkun gjalda.
Á vefsvæði Seltjarnarness er að finna fasteignagjaldareiknivél sem gerir íbúum kleift að bera saman fasteignagjöld nokkurra sveitarfélaga. Reiknivélin hefur nú verið uppfærð með nýjustu álagningartölum miðað við árið 2008. Reiknivélin er á síðu fjárhags- og stjórnsýslusviðs bæjarins á slóðinni /svid-og-deildir/fjarhagssvid/reiknivelar/.