Fara í efni

Seltirningar í góðum málum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fundaði með bæjarstjórn og starfsmönnum bæjarins sl. þriðjudag. Þetta er árlegur fundur lögreglunnar með stjórnendum bæjarfélagsins, en á honum er m.a. farið yfir þróun brota á Seltjarnarness

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fundaði með bæjarstjórn og starfsmönnum bæjarins sl. þriðjudag. Þetta er árlegur fundur lögreglunnar með stjórnendum bæjarfélagsins, en á honum er m.a. farið yfir þróun brota á Seltjarnarnesi. Staða mála á Nesinu er almennt mjög góð, enda ekki mikið um afbrot á Seltjarnarnesi og hefur svo verið undanfarin ár. Innbrotum á heimili hefur t.d. fækkað hlutfallslega frá árinu 2007. Hér má nálgast tölulegar upplýsingar um þróun allra brota á Seltjarnarnesi 2007 til 2010.

Einnig var stefna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kynnt og áherslur hennar en eitt af markmiðum embættisins er að auka öryggistilfinningu íbúa. Samkvæmt könnun lögreglunnar telja langflestir íbúar sveitarfélagsins sig örugga þegar þeir eru einir á ferð í byggðarlaginu. Könnunin náði einnig til íbúa í miðborginni og vesturbæ Reykjavíkur en verkefnum þar og á Seltjarnarnesi sinnir lögreglustöð 5 en höfuðstöðvar hennar eru á Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík. 83% íbúa á þessu svæði töldu sig örugga þegar þeir svöruðu áðurnefndri spurningu og tæplega 90% töldu lögregluna sinna mjög eða frekar góðu starfi á þeirra svæði. Athygli vakti hinsvegar að fjórðungur íbúanna taldi lögregluna ekki nógu aðgengilega á þeirra svæði þegar um það var spurt í sömu könnun. Það er atriði sem lögreglan tekur til sín og vill bæta.

Sigrún Edda Jónsdóttir, Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Hvanndal og Guðmundur Magnússon
Talið frá vinstri: Sigrún Edda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi, Ásgerður Halldórsdóttir,
bæjarstjóri, Sigrún Hv Magnúsdóttir, félagsráðgjafi og Guðmundur Magnússon,
forseti bæjarstjórnar fylgjast áhugasöm með fyrirlestri lögreglunnar um stefnu
og áherslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?