Fara í efni

Seltirningar eignast heimsmeistara

Fanney Hauksdóttir, kraftlyftingakona úr Gróttu, varð í gær, miðvikudaginn 21. maí, heimsmeistari unglinga í bekkpressu í -63 kg flokki
Fanney Hauksdóttir, kraftlyftingakona úr Gróttu, varð í gær, miðvikudaginn 21. maí, heimsmeistari unglinga í bekkpressu í -63 kg flokki. Fanney sigraði með miklum yfirburðum lyfti 135 kílóum, en sú sem lenti í öðru sæti lyfti 120 kg. Seltjarnarnesbær óskar heimsmeistaranum til hamingju með stórkostlegan árangur og er stolt yfir að eiga jafngóða fyrirmynd og hún er öðrum íþróttamönnum.

Fanney Hauksdóttir

Í frétt á Vísi kemur þetta fram í viðtali blaðamanns við Fanneyju:
„Ég var mjög vel stemmd og mætti bara í mótið einbeitt á hvað ég ætlaði að gera og hugsaði ekkert um hina keppendurna. Markmiðið var að komast á pall. Ég var ekki að setja stefnuna á eitthvert sæti þannig að þetta gull er bara bónus.“

Fanney keppti á sama móti í fyrra en fékk þá bronsverðlaun. Hún hafnaði reyndar í fjórða sæti á eftir keppanda frá Kasakstan sem féll síðar á lyfjaprófi.

„Ég fékk aldrei að taka á móti verðlaununum í fyrra þannig að núna varð ég að fara upp á þennan pall.“ 

Í fyrra lyfti Fanney 115 kg þannig að bætingin í Rödby var mikil, eða heil 20 kíló. Þessi gríðarlega efnilega lyftingakona á eitt ár eftir í „junior“-flokki og getur því varið titil sinn að ári. „Ég fer bara aftur á næsta ári og bæti mig enn meira,“ segir hún ákveðin.

Fanney meiddist á Íslandsmótinu í febrúar og hefur ekki verið alveg heil í nokkurn tíma en lét það ekkert á sig fá í Danmörku. „Pétur, sjúkraþjálfarinn minn, er búinn að vinna vel með mig. Ég er kannski ekki alveg heil en í fínu keppnisstandi,“ segir hún. Hvað tekur svo við í sumar?

„Í ágúst er Norðurlandamót í bekkpressu á Íslandi. Nú hefjast bara æfingar fyrir það. Fyrst ætla ég samt til Kaupmannahafnar í tvo daga að hitta systur mína áður en ég kem heim á föstudaginn. Það verður ljúft,“ segir Fanney Hauksdóttir.

Fanney var valin íþróttamaður ársins á Seltjarnarnesi 2013 og í rökstuðningi dómnefndar var þetta lagt til grundvallar:

Fanney sigraði á Íslandsmótinu í bekkpressu í janúar 2013.
Hún varð Norðurlandameistari unglinga í febrúar þar sem hún setti Íslandsmet í bekkpressu.
Hún sigraði á Íslandsmótinu og setti Íslandsmet í bekkpressu í mars.
Fanney keppti á heimsmeistaramóti í bekkpressu sem fram fór í Litháen í maí og vann til bronsverðlauna í sínum þyngdarflokki.
Fanney er nú í 21.sæti á heimslista IPF sem er alþjóða kraftlyftingasambandið yfir alla í hennar þyngdarflokki, unglinga og fullorðinna.  Þess má geta að Fanney á 2 ár eftir í unglingaflokki.
Fanney hefur einbeitt sér að bekkpressu og hennar besti árangur er 115kg í opinberu móti.  Á árinu keppti hún í 57 og 63kg flokki.
Fanney leggur mikinn metnað í æfingarnar sem eru að jafnaði 4-5 daga vikunnar.  Hún er mjög reglusöm og frábær fyrirmynd.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?