Fara í efni

Samstarfssamningur vegna barna í viðkvæmri stöðu á Seltjarnarnesi

Seltjarnarnesbær, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ætla að vinna saman til að stuðla að farsæld fyrir börn í viðkvæmri stöðu á Seltjarnarnesi og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi.
Við undirritun samstarfssamningsins, fv: Sigríður Dóra Magnúsdóttir forstjóri heilsugæslu höfuðborga…
Við undirritun samstarfssamningsins, fv: Sigríður Dóra Magnúsdóttir forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar og Sigríður Kristinsdóttir sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.

Seltjarnarnesbær, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafa ákveðið að vinna saman til að stuðla að farsæld fyrir börn sem eru í viðkvæmri stöðu á Seltjarnarnesi og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi. Samstarfssamningur þar að lútandi var undirritaður á bæjarskrifstofum Seltjarnarnesbæjar mánudaginn 2. desember. Samstarfsaðilar ætla að starfa saman við að móta og samræma verklag sitt í þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu, eins og hægt er innan ramma laga um starfsemi aðila, persónuvernd og mannréttindi. Verklagið nær til miðlunar upplýsinga, samstarfs og þróun samþættingar í þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu og/eða foreldra/forsjáraðila þeirra.

Verklag sem lýsir samstarfi þjónustuaðila sem sinna börnum, s.s. leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, barnaverndarþjónustu, félagasamtakum, og annarra stofnanna eins og lögreglu, sýslumanna og heilbrigðiskerfis verður kynnt fulltrúum skóla á Seltjarnarnesi síðar í mánuðinum og verður strax að því loknu hafist handa við að vinna samkvæmt því. Samkvæmt farsældarlögunum ber þjónustuveitendum að hafa góða almenna samvinnu sín á milli með áherslu á þverfaglega þekkingu og gagnkvæma fræðslu og að taka þátt í því samstarfi sem nánar er mælt fyrir um í lögunum. Það felur m.a. í sér að fylgjast með stöðu barna og ungmenna í bænum almennt og bregðast við áhættuhegðun.

Undirbúningur samstarfsins hófst sl. vor og hafa margir lagt sitt af mörkum við gerð samningsins og verklags um þjónustu við börn í vanda og í viðkvæmri stöðu. Hluti af því ferli var vinnustofa sem haldinn var í Valhúsaskóla 25. september sl, þar sem um 80 fulltrúar lögreglu, sýslumannsembættisins og heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu unnu með starfsfólki skóla og félagsþjónustu á Seltjarnarnesi að því hvernig samstarfi þessara aðila væri best háttað. Sambærilegt samstarf er í vinnslu á milli áður nefndra embætta og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?