Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) hefur gefið út samræmdar reglur fyrir grunnskóla og foreldra um viðbrögð við því þegar skólastarf á höfuðborgarsvæðinu raskast vegna veðurs og ófærðar. Gert er ráð fyrir að þegar óveður er í aðsigi sem talið er að geti raskað skólastarfi verði snemma dags gefnar út viðvaranir og getur þá verið um að ræða tvö mismunandi viðbúnaðarstig gagnvart skólunum. Annars vegar að skólastarf raskist og hins vegar að skólahald falli niður. Reglurnar hafa verið gefnar út á íslensku, ensku, pólsku, rússnesku, spænsku og tælensku.
Stjórn SHS, sem skipuð er framkvæmdastjórum sveitarfélaganna, fól SHS að útbúa reglurnar í samvinnu við skólayfirvöld á svæðinu. Í kjölfar endurtekinna illviðra á svæðinu veturinn 2007-2008 og ítrekaðrar röskunar á samgöngum og skólastarfi vegna þeirra þótti stjórn SHS þörf á meira samræmi í viðbrögðum, ekki síst hvað varðar viðvaranir og skipulag skólastarfs þegar veður hamlar eðlilegu skólastarfi.
Gert er ráð fyrir að viðvaranir verði gefnar út frá Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í samvinnu við fjölmiðla þegar sýnt þykir að skólastarf muni raskast eða jafnvel falla niður vegna veðurs.
Þegar um viðbúnaðarstig 1 er að ræða er gert ráð fyrir að skólastarf raskist vegna erfiðleika starfsfólks og nemenda við að komast til skóla. Ber foreldrum þá að fylgja börnum sínum í skólann og yfirgefa þau ekki fyrr en þau eru í öruggum höndum starfsfólk skólans. Við slíkar aðstæður ber starfsfólki skóla að tryggja að nemendur yfirgefi ekki skólann nema í fylgd foreldra sinna.
Á viðbúnaðarstigi 2 fellur skólahald niður og ber foreldrum þá að halda börnum sínum heima. Misbrestur getur þó orðið á að tilkynning af þessu tagi skili sér til allra og því skal yfirstjórn skólans sjá til þess að unnt sé að veita upplýsingar á staðnum og tryggja að börn lendi ekki í hrakningum. Komi nemendur til skóla þrátt fyrir tilkynningu um að skólahald falli niður ber að halda þeim þar uns unnt er að tryggja þeim örugga heimferð.
Viðvaranir verða sendar fjölmiðlum og birtar á vefsíðum SHS og skólanna eftir föngum. Foreldrar eru því beðnir að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum þegar veðurútlit er slæmt. Reglurnar eru birtar á vefsíðum SHS og skólanna og eru foreldrar beðnir að kynna sér þær vel..