Fara í efni

Samningur um sköpun kennsluvettvangs fyrir nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Í dag var undirritaður í Nesstofu samningur milli Seltjarnarnesbæjar, námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Lækningaminjasafns Íslands um sköpun kennsluvettvangs í Nesi fyrir nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Steinunn Kristjánsdóttir, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir og Ásgerðar HalldórsdótturÍ dag var undirritaður í Nesstofu samningur milli Seltjarnarnesbæjar, námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Lækningaminjasafns Íslands um sköpun kennsluvettvangs í Nesi fyrir nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Markmið samkomulagsins er að skapa vettvang fyrir verklega kennslu í fornleifafræði og gera aðgengileg á einum stað gögn sem tengjast fornleifarannsóknum í Nesi. Námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands mun á grundvelli samkomulagsins halda úti kennslu í vettvangsrannsóknum í Nesi við Seltjörn á hverju vori í 10 ár frá undirritun samkomulagsins. Hefst fyrsta vettvangsnámskeiðið þann 10. maí næstkomandi og mun það standa yfir í einn mánuð.

Bæjarhóllinn í Nesi er hluti af safnasvæði Seltirninga sem er staðsett vestan íbúðabyggðar á Seltjarnarnesi. Þar eru staðsett tvö söfn, Lækningaminjasafn Íslands og Lyfjafræðisafnið.

Í tengslum við fornleifarannsóknirnar verður boðið upp á leiðsagnir fyrir almenning um uppgraftarsvæðið og niðurstöður rannsóknanna verða kynntar jafnóðum í sýningum í Nesstofu sem er í umsjá Lækningaminjasafns.

Að rannsóknum loknum verður gegnið frá uppgraftarsvæðinu þannig að rústir mannvirkjanna verða sýnilegar gestum svæðisins. Frágangurinn er í samræmi við stefnu Seltjarnarnesbæjar að draga fram náttúru- og menningarsöguleg sérkenni á Vestursvæðum Seltjarnarness og bæta aðstöðu til fræðslu fyrir þá fjölmörgu sem sækja svæðið heim.

Auk bæjarstjóra Seltjarnarness, Ásgerðar Halldórsdóttur, undirrita samninginn Dr. Steinunn Kristjánsdóttir formaður námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir safnstjóri Lækningaminjasafn Íslands.



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?